„Kveikjan að verkinu er veikindi móður minnar“

Með Guð í vasanum hefur gengið fyrir fullu húsi frá …
Með Guð í vasanum hefur gengið fyrir fullu húsi frá því í haust. Samsett mynd

Leiksýningin Með Guð í vasanum hefur heillað áhorfendur allt frá því hún var frumsýnd síðastliðið haust á Nýja sviðið Borgarleikhússins. María Reyndal, leikstjóri og leikskáld, leitaði innblásturs víða en verkið er að hluta til byggt á persónulegri reynslu. 

María er landsmönnum vel kunn. Hún hefur skipað sér sess sem handritshöfundur fyrir leikhús og sjónvarp og leikstýrt ótal verkefnum síðastliðin ár. María hefur frá blautu barnsbeini haft mikinn áhuga á skrifum og góðum sögum. „Áhuginn hefur fylgt mér frá æsku. Ég hef alltaf elskað að segja sögur og hef ávallt verið mikill lestrarhestur. Sem barn las ég mjög mikið, las allt sem ég komst yfir. Ég áttaði mig á því snemma að köllun mín í lífinu væri að starfa við leiklist, sköpun og skrif.“

Þegar blaðamaður mbl.is. hafði samband við Maríu var hún að útbúa hádegisverð. Hún gaf sér þó tíma til að svara nokkrum spurningum um lífið í leikhúsinu, skrifin og Grímuverðlaunin en leiksýning hennar, Með Guð í vasanum, hlaut fimm tilnefningar til Grímunnar, þar á meðal sem leikrit ársins. 

„Maður skrifar gjarnan um það sem er nálægt manni“

Hvaðan fékkst þú innblástur fyrir verkið?

„Já, hún sprettur nú kannski í heimahúsum. Það er ekkert launungarmál að móðir mín er með elliglöp en leiksýningin er alls ekki speglun á hana eða samband okkar. Maður skrifar gjarnan um það sem er nálægt manni. Kveikjan að verkinu er veikindi móður minnar í kjölfar hækkandi aldurs. 

Ég vildi skoða muninn á ólíkum upplifunum af sjúkdómnum. Það er rosalegur munur á milli kynslóða sem eru að aðstoða foreldra sína og þeirra sem eru orðnir aldraðir og eru að missa getuna. Það er þetta bil sem mér fannst áhugavert fyrir leikhúsið að skoða og skilja betur. Mér fannst því sniðugt að setja verkið inn í hugarheim manneskju með elliglöp því að við sem erum ekki þar erum ekkert endilega að sjá og skilja hvernig hún lítur á tilveruna.“

Það tók Maríu eitt og hálft ár að skrifa verkið. Hún lýsir skrifferlinu sem ákveðinni hringekju. „Þegar sjúkdómar ágerast fer af stað sorgarferli hjá viðkomandi og aðstandendum. Ég upplifði það en gat skrifað mig frá því að vissu leyti. Skrifferlið var erfitt og heilandi. Sveinn Ólafur Gunnarsson var hægri hönd mín og aðstoðaði mig frá upphafi. Ég á honum margt að þakka,“ segir María. 

„Titillinn datt óvænt upp í hendurnar á mér“

Hvaðan kemur titillinn?

„Titillinn datt óvænt upp í hendurnar á mér þegar ég var að ræða við Brynhildi Guðjónsdóttur leikhússtjóra Borgarleikhússins. Ég var að segja henni frá hugmyndinni og sagði að ég þekkti fólk sem er með guð í vasanum. Þar var titillinn kominn. Í leikritinu er ég í rauninni að lýsa því hvernig mamma mín sé með guð í vasanum.“

María og Sveinn Ólafur veltu vel og lengi fyrir sér hvern þau gætu fengið til að túlka karakter Ástu sem upplifir sig í blóma lífsins þó svo hún glími við ýmis veikindi og erfiðleika sem fylgja hækkandi aldri. 

„Ég prófaði fullt af konum á öllum aldri en þegar Katla Margrét Þorgeirsdóttir las hlutverkið þá vissi ég strax að Ásta væri fundin. Hlutverkið er mjög krefjandi en Katla Margrét leikur það svo fallega og af mikilli einlægni. Í þessum hóp er fullkomið traust og það sést á sviðinu. Það er valinn maður í hverju sæti. Katla Margrét og Kristbjörg þekkjast vel og eru báðar með einstakt hjartalag. Áhorfandinn upplifir það.“

Tilnefnd til fimm Grímuverðlauna

Með Guð í vasanum er tilnefnd til fimm verðlauna á Grímunni sem fer fram annað kvöld í Þjóðleikhúsinu. 

Skipta tilnefningar máli?

„Sko, þessar tilnefningar eru skemmtilegar fyrir okkur í þessum bransa og það skiptir máli fyrir fagið að einblína á það sem hefur gengið vel. Maður má samt passa sig að taka þetta ekki mjög alvarlega sem listamaður, ekki verða háður grímuverðlaunum,“ segir María og hlær. 

Sýningum á Með Guð í vasanum lýkur þann 9. júní næstkomandi en góðar líkur eru á því að leiksýningin verði tekin til sýninga á ný á næsta leikari. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í sterkum tengslum við tilfinningar þínar í dag og því er hætt við að þú segir eitthvað sem þú átt eftir að iðrast síðar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í sterkum tengslum við tilfinningar þínar í dag og því er hætt við að þú segir eitthvað sem þú átt eftir að iðrast síðar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Torill Thorup