Getur þetta endað vel?

Tom Hardy og Austin Butler í hlutverkum sínum. ​
Tom Hardy og Austin Butler í hlutverkum sínum. ​ Universal Pictures

Hvað gera menn sem litnir eru hornauga af samfélaginu og engum háðir árið 1965? Þeir stofna mótorhjólaklúbb. Og aðalgaurinn getur ekki heitið neitt annað en Johnny. Þið munið Marlon Brando í The Wild One. Hann tekur ungan mann, Benny, undir sinn verndarvæng; týpuna sem fyrr mun láta lífið en að afhenda einhverjum frekjudúddum leðurjakkann sinn. Eruð þið að ná þessu? Er tragedía í uppsiglingu?

Auðvitað á Benny kærustu, Kathy, sem hefur engan áhuga á að deila honum með Johnny og hinum gaurunum í Vandals MC. Hún telur meira búa í sínum manni. Árin líða, mannskapurinn kominn út á ystu nöf og Vandals farinn að minna meira á glæpasamtök en mótorhjólaklúbb. Eins og getur gerst. Til uppgjörs hlýtur að koma! Í bakgrunni kraumar uppreisn sexunnar gegn ríkjandi gildum, frjálsar ástir, stríð, friðarákall, geimferðir og allur pakkinn.

Jodie Comer fer með aðalkvenhlutverkið.
Jodie Comer fer með aðalkvenhlutverkið. AFP/Roy Rochlin


Við horfum hér yfir sviðið í kvikmyndinni The Bikeriders eftir Jeff Nichols sem frumsýnd verður í vikunni. Þar kemur saman svalasti hópur manna sem lengi hefur sést á hvíta tjaldinu. Okkar allra svalasti maður, Tom Hardy, leikur Johnny og Austin „Elvis“ Butler Benny. Þarna eru líka Michael Shannon, Mike Faist og Norman gamli Reedus. Hugsið ykkur! Mótvægið og aðhaldið er fólgið í Jodie Comer, sem fer með hlutverk Kathyjar. Sú má aldeilis hafa sig alla við, því af 13 nafngreindum leikurum á Wikipediu er hún eina konan. 

The Bikeriders sækir innblástur í fræga svarthvíta ljósmyndabók sem Danny Lyon gaf út árið 1968 og þótti fanga vel andann í mótorhjólaklúbbnum fræga Outlaws MC.

Langflóknasta handritið

Um er að ræða sjöttu mynd Jeffs Nichols í fullri lengd og hann upplýsir í samtali við vefsíðu Harley Davidson-mótorhjólanna að hann hafi gengið með hana í maganum í um tvo áratugi, eða frá því að hann uppgötvaði ljósmyndabókina fyrst. „Þá var ég ekki tilbúinn tæknilega sem kvikmyndagerðarmaður og sem sögumaður þurfti ég að auki tíma til að finna leiðina inn í verkið. Þetta er langflóknasta handrit sem ég hef nokkru sinni skrifað, þó ég voni að það skíni ekki í gegn þegar menn horfa á myndina, og satt best að segja hafði ég ekki kjark fyrr en ég var búinn að gera fimm myndir. Í þessari mynd vissi ég að tíminn myndi líða á sérkennilegan hátt, vegna þess að ég vildi vera á ferðinni og fanga þessar fallegu sögur í bókinni, sem ég hef unnað heitt lengi.“

Jeff Nichols kvikmyndagerðarmaður.
Jeff Nichols kvikmyndagerðarmaður. AFP/Jesse Grant


Nichols kveðst ekki hafa viljað stíga á tærnar á Outlaws (hver myndi svo sem vilja það?), þannig að hann skáldaði söguþráðinn, eftir að hafa fengið grænt ljós frá Ljóninu sjálfu, Danny Lyon. Frásagnir meðlima klúbbsins dýpka þó, að hans mati, ljósmyndirnar í bókinni og um þetta fólk vildi hann skrifa – óbeint. „Myndin varð að vera um þetta fólk og hvernig það upplifði sig sjálft og hvernig það passaði og passaði ekki inn í veröldina,“ segir Nichols.

Nánar er fjallað um The Bikeriders í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur lagt hart að þér að undanförnu og átt því skilið að eiga rólegan dag og gera aðeins það sem þig langar til. Njóttu samvista við vini þína og ættingja.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur lagt hart að þér að undanförnu og átt því skilið að eiga rólegan dag og gera aðeins það sem þig langar til. Njóttu samvista við vini þína og ættingja.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir