Ballett í heimsklassa heimsækir Ísland

Þessi glæsilega mynd er af sýningu ballettsins á Þyrnirós sem …
Þessi glæsilega mynd er af sýningu ballettsins á Þyrnirós sem áhorfendur flykktust á. Ljósmynd/Birmingham Royal Ballet

Konunglegi ballettinn í Birmingham, Birmingham Royal Ballet, er einn fremsti ballettflokkur heims. Sextán dansarar hópsins verða með sýningu í Eldborgarsal Hörpu 26. júní klukkan 20.00. Þetta verður eina sýning hópsins hér á landi. Ballettinn nýtur mikillar virðingar og fer reglulega í sýningarferðir víða um heiminn við gríðargóðar viðtökur. Það er því verulegur fengur að komu hans hingað til lands.

Sýningin sem hefur yfirskriftina Classical Section er sett saman af stjórnanda ballettins, Carlos Acosta. Þar flytur dansflokkurinn úrvals dansatriða úr klassískum og nýklassískum ballettverkum. Á efnisskránni er meðal annars að finna atriði úr Svanavatninu, atriði úr Carmen sem Carlos Acosta samdi við tónlist Bizet, atriði úr La Sylphide og túlkun á deyjandi svani við tónlist Saint-Saens.

Frá götunni til heimsfrægðar

Carlos Acosta er alþjóðleg stjarna í ballettheiminum. Frá því hann útskrifaðist úr ballettskóla í Kúbu hefur hann dansað á sviði um allan heim. Hann er fæddur árið 1973 og hefur verið stjórnandi Birmingham Royal Ballet frá árinu 2020. Acosta hefur verið kallaður Mick Jagger ballettsins. Sú nafngift varð til eftir að blaðamaður sagði við hann: Þú ert eins og Mick Jagger, þú hættir aldrei!

Acosta á sér stórmerkilega sögu, sem hefur verið verð skil í kvikmyndinni Yulie, sem fékk frábæra dóma. Sjálfur segist hann hafa farið að hágráta þegar hann sá myndina, en hann kemur fram í henni. Hann skrifaði sjálfsævisögu, No Way Home og samdi ballettinn Tocororo, sem er lauslega byggður á ævi hans og hefur verið sýndur víða um heim við gríðargóðar viðtökur.

Ögun og fágun einkennir túlkun dansara Konunglega ballettsins í Birmingham.
Ögun og fágun einkennir túlkun dansara Konunglega ballettsins í Birmingham. Ljósmynd/Birmingham Royal Ballet

Acosta er yngstur í röð ellefu systkina og ólst upp við mikla fátækt á Kúbu. Faðir hans var vörubílstjóri og móðir hans var heilsuveil. Sem barn átti Acosta ekki leikföng en skemmti sér við að spila fótbolta og stunda break-dans. Föður hans þótti þessi yngsti sonur vera nokkuð villtur og óttaðist að hann myndi jafnvel leiðast út í glæpi og sendi hann í ballett.

Blaðamaður hitti Acosta á skrifstofu hans í stórri byggingu í miðbæ Birmingham sem hýsir ballettinn og þá miklu starfsemi sem er í kringum hann. Blaðamaður spyr Acosta um æsku hans og hann segir: „Pabbi neyddi mig til að fara í ballett. Mér fannst ekki gaman í skóla, ég var vandræðapjakkur og var alltaf úti á götu með vinum mínum. Við vorum hrifnir af breikdansi. Mig langaði til að verða næsti Michael Jackson. Nágrannarnir á neðri hæðinni áttu tvo syni sem voru í ballettskóla. Pabbi vildi aga mig og ákvað að rétta leiðin væri að senda mig í ballett. Ég hafði andstyggð á ballett, vildi snúast um á hausnum í breikdansi, en fór í ballett tilneyddur. Svo var mér tvisvar vísað úr skólanum og ballettinn varð líf mitt. Ég var með danskennara sem komu augu á hæfileika mína og er sérlega þakklátur kennara sem þjálfaði mig fyrir danskeppni þegar ég var sextán ára gamall. Ég vann þá keppni og þá hófst ferillinn.“

Bandarísk og evrópskir dansflokkar buðu honum hlutverk og frami hans var skjótur. Hann varð stjarna í ballettheiminum og var líkt við Mikhail Baryshnikov og Rudolf Nureyev. Hann hefur unnið til ótal verðlauna á ferlinum.

Hann hefur ekki gleymt upprunanum og kom á fót dansskóla á Kúbu og stofnaði dansflokkinn Acosta Danza, sem ferðast um heiminn. Hann fer til Kúbu tvisvar til þrisvar á ári.

Carlos Acosta, stjórnandi ballettsins, er heimsfrægur
Carlos Acosta, stjórnandi ballettsins, er heimsfrægur Ljósmynd/Kjartan Þórarinsson

Vissi ekkert um prinsa

Acosta hætti að mestu að dansa opinberlega árið 2016. „Ég hætti að dansa klassískan ballett og kvaddi sokkabuxurnar. Ég gerði eina undantekningu. Ég varð fimmtugur á síðasta ári og kom fram í The Royal Opera House í Covent Garden og var í sokkabuxum,“ segir hann.

Spurður hvort hann eigi sér uppáhaldshlutverk segir hann: „Mér fannst gaman að dansa Don Quixote. Það er hlutverk sem passar vel við persónuleika minn. Svo voru hlutverk sem voru engan veginn í takt við persónuleika minn, eins og prinsarnir. Ég vissi allt um fátækt alþýðufólk en ég hafði ekki hugmynd um hvernig prinsar höguðu sér. Ég hafði aldrei séð neinn eins og þá í umhverfi mínu á Kúbu þannig að þeir voru mér mjög fjarlægir. En ég reyndi að skilja þá og fann mína leið til að túlka þá og gera þá trúverðuga. Fólk hreifst af mér í hlutverki Rómeó, en ég varð að leggja mjög hart að mér til að geta túlkað hann.“

Spurður um hápunktinn á gríðarlega farsælum ferli nefnir hann árin 2001-2008. „Þá dansaði ég um allan heim og á sama tíma setti ég upp eigin sýningar. Ég er líka mjög stoltur af því að vera fyrsti útlendingurinn sem var boðið að dansa hlutverk Spartakusar með Bolshoi-ballettinn.“

Acosta gerir sér glögga grein fyrir því að Birmingham-ballettinn má hvergi gefa eftir þegar kemur að gæðum. Hann segist verða var við mikinn áhuga á ballett. „Stundum þegar fólk hugsar um ballett þá hugsar það um 19. öldina en ballettinn hefur þróast og þarf að þróast til að ná í nýja áhorfendur.

Við gerðum ballettsýningu, Black Sabbath, þar sem þungarokk og ballett mættust, og á hana komu áhorfendur sem vissu lítið sem ekkert um ballett og komu ekki á Hnetubrjótinn. Eftir að hafa séð Black Sabbath komu margir þeirra á Hnetubrjótinn. Ballettinn þarf að höfða til nýrra áhorfenda og ef þeir hrífast af ballettsýningu þá eru líkur á að þeir komi næst á Hnetubrjótinn eða Svanavatnið.“

Hann segir mikla eftirvæntingu ríkja meðal hópsins vegna Íslandsferðarinnar. „Við erum ballett sem er mikið á ferðinni. Ég vil alltaf finna nýja markaði og koma nýja staði Við erum spennt að koma til Íslands. Vonandi eigum við eftir að koma þangað aftur. Prógrammið sem við flytjum veitir innsýn í fjölbreytileikann í dansi og ballett. Ég vona að áhorfendur taki sýningunni vel.“

Karlkynsdansarar ballettflokksins að lokinni æfingu.
Karlkynsdansarar ballettflokksins að lokinni æfingu. Ljósmynd/Kjartan Þórarinsson

Ballerína og Íslandsvinur

Ein af aðalballerínum Konunglega ballettsins er Céline Gittens, margverðlaunuð ballerína, sem er einstaklega elskuleg og hlý í viðkynningu. Hún hefur áður komið til Íslands. Það var árið 2009 og hún kom með kærasta sínum, dansara í dansflokknum sem nú er eiginmaður hennar. „Það var frábært, allir voru svo alúðlegir. Við vorum í Reykjavík og á Akureyri. Við sáum norðurljósin, þau voru reyndar ekki mjög greinileg en þau voru þarna.Við villtumst í Reykjavík. Strætisvagnabílstjóri áttaði sig á því, stoppaði og veifaði okkur. Hann var að hætta akstri og ók okkur á hótelið okkar. Ég á góðar minningar frá Íslandi,“ segir hún.

Gittens byrjaði að dansa þriggja ára. „Mamma var ballettkennari og dansari þegar hún var yngri. Ég ólst upp við klassíska tónlist og ballett. Hún hitti pabba í London og þau fluttu til Trinidad en pabbi er þaðan. Síðan fluttu þau til Kanada. Þegar ég var fimmtán ára áttaði ég mig að því að ballettinn gæti orðið starfsvettvangur minn. Ég sigraði í danskeppnum í Vancouver og um leið jókst sjálfstraustið og ég hugsaði með mér að ég gæti náð árangri sem dansari.

Ég komst inn í Royal Birmingham Ballet fyrir tilviljun. Við komum til Birmingham til að heimsækja fjölskylduvini og mamma sagði að ég ætti kannski að fara í prufu og ég endaði hér árið 2006.“

Spurð um uppáhaldsballett sinn nefnir hún Svanavatnið. „Jafnvel þeir sem hafa aldrei séð ballett hafa heyrt um Svanavatnið. Þetta er ballett sem nýtur alls staðar vinsælda. Svo verð ég að nefna Rómeó og Júlíu. Það er drama í Svanavatninu en enn meira í Rómeó og Júlíu þar sem reynir mjög á leikræna þáttinn. Ég tengi mjög við túlkunarþáttinn í dansinum, mér finnst gaman að verða einhver önnur manneskja á sviði.“

Í sýningunni í Hörpu dansar hún atriði úr Svanavatninu, túlkar einnig hinn deyjandi svan við tónlist Saint-Saens og dansar síðan við lagið Je ne regrette rien sem Edith Piaf gerði ódauðlegt. „Ég hlakka mjög til, get eiginlega ekki beðið eftir að koma til Íslands,“ segir hún.

Brosmildar ballerínur. Céline Gittens er fremst fyrir miðju.
Brosmildar ballerínur. Céline Gittens er fremst fyrir miðju. Ljósmynd/Kjartan Þórarinsson

Ballett fyrir alla

Í heimsókn sinni til ballettsins í Birmingham fékk blaðamaður að fylgjast með æfingum. Þar á meðal voru æfingar á nýju verki Luna sem frumsýnt verður í haust og fjallar um konur í Birmingham. Verkið reynir mjög á dansarana og er bæði magnþrungið og sláandi, Listviðburður sem auðvelt er að veðja á að muni slá í gegn.

Blaðamaður fylgdist einnig með börnum í balletttíma, en á hverju ári veitir ballettinn um hundrað börnum ókeypis ballettkennslu í ár. Hæfileikaríkir nemendur fá ókeypis framhaldsnám í nokkurn tíma eftir það. Einstaklingar með fötlun fá einnig ókeypis ballettkennslu. Þannig er ballettinn stór hluti af lífi fjölmargra einstaklinga í Birmingham.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur lagt hart að þér að undanförnu og átt því skilið að eiga rólegan dag og gera aðeins það sem þig langar til. Njóttu samvista við vini þína og ættingja.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur lagt hart að þér að undanförnu og átt því skilið að eiga rólegan dag og gera aðeins það sem þig langar til. Njóttu samvista við vini þína og ættingja.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir