Allt fyrirtækið mætti á Metallica

Gestur Hjörvar Magnússon mætti með allt fyrirtæki sitt, Rafveituna, á …
Gestur Hjörvar Magnússon mætti með allt fyrirtæki sitt, Rafveituna, á tónleikana og má kalla að nafnið hafi átt vel við. Gestur er fremst á myndinni en við hlið hans, og nánast eins og augað eygir, má sjá samstarfsmennina. Ljósmynd/Gestur Hjörvar Magnússon

„Þetta var nú eiginlega bara þannig að strákarnir sem vinna hjá mér fóru að tala um þetta og það varð úr að við ákváðum að fara á tónleikana, allt fyrirtækið,“ segir Gestur Hjörvar Magnússon, rafvirki, fyrrverandi togarajaxl úr Eyjum og að auki eigandi Rafveitunnar sem um helgina lagðist heldur betur í víking og hélt með manni og mús til Kaupmannahafnar.

Tilefnið var enda langt í frá órafmagnað þar sem eitt gjörvilegasta þungarokks-átorítet þessa heims, San Francisco-sveitin Metallica, lagði kóngsins København undir sig um helgina með granítharðri frammistöðu í einum af skárri hljómskálum Evrópu, goðsögninni Parken í Höfn þeirra kaupmanna.

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Meira af ferðalagi Gests og rafvirkjanna hér á eftir en við hefjum leikinn á föstudaginn, 14. júní, á fyrri tónleikum M72 World Tour-ferðalags Metallica, hugsanlega einni metnaðarfyllstu tónleikaferð sögunnar þar sem sveitin stígur á svið tvö einstök kvöld á hverjum tónleikastað – einstök segist hér og skrifast vegna kerfis sem þeir James Hetfield og félagar kalla „No repeat“, ekkert verk sveitarinnar fær að hljóma bæði kvöldin.

Andrúmsloftið lævi blandið

Ekki er örgrannt um að einhverjum lesenda leiki hugur nú hugur á hvort mögulegt sé að halda nánast fullum leikvangi, sem tekur við 38.000 áhorfendum, gjörsamlega á tánum, öskrandi úr sér lungun, fellandi sölt tár eða hreinlega liggjandi í óviti í fósturstellingum á tvennum tæplega þriggja klukkustunda tónleikum með sextán laga „setlist“ hvort kvöld. Vituð ér enn eða hvat? Þótt sá sem hér skrifar hafi aðeins sótt fyrri tónleika helgarinnar er svarið hiklaust já.

Lars Ulrich sýnir heldur betur sitt rétta andlit, maður sem …
Lars Ulrich sýnir heldur betur sitt rétta andlit, maður sem barði húðirnar einhvern tímann átta slög á sekúndu að því sagt var...og gerir ef til vill enn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Andrúmsloftið á föstudagskvöldið var lævi blandið er eitthvað í áttina að 40.000 rokksvín og stuðhænur fylltu áhorfendapalla Parken en aðstandendur tónleikana vildu ekki gefa blaðamanni Ekstra Bladet upp áhorfendatölur er eftir þeim var falast. Leikvangurinn var þó að sjá stútfullur.

M72-ferðalag Metallica gumar af sjö upphitunarhljómsveitum, tveimur hvert kvöld, og happdrætti hvaða sveita hver hópur tónleikagesta fær að njóta. Hvað það verður veit nú enginn en sveitirnar eru Mammoth WVH, Five Finger Death Punch, Ice Nine Kills, Greta Van Fleet, Volbeat, Architects og....haldið ykkur...Texas-sveitin Pantera, Phil Anselmo og þeir af hans mönnum sem ekki hafa verið skotnir til bana á tónleikum eða eitthvað þaðan af.

Létu bíða hæfilega eftir sér

Architects og Mammoth hituðu Parken á föstudaginn og buðu hvorir tveggja upp á bærilegasta þéttleika. Eins og margir vilja gera mikið úr upphitunarsveitum hef ég aldrei verið sérstakur aðdáandi, helst að Phantômas, með gamla Slayer-trommarann Dave Lombardo innbyrðis, hafi staðið sig í upphitun fyrir ógleymanlega frammistöðu Korn í Laugardalshöllinni um hvítasunnuna 2004.

Roberto Agustín Miguel Santiago Samuel Trujillo Veracruz er einfaldlega helöflugur …
Roberto Agustín Miguel Santiago Samuel Trujillo Veracruz er einfaldlega helöflugur á bassanum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þá voru þeir félagar í Exizt ekki alveg ónýtir fyrir Iron Maiden í sömu höll 5. júní 1992 og Brain Police og Mínus brenndu Egilshöll nánast til grunna áður en Metallica steig þar á svið á mögnuðum tónleikum 4. júlí 2004 sem um sex prósent íslenskrar þjóðar sóttu.

Hvað um það, aðalnúmer kvöldsins á Parken um helgina létu bíða sæmilega eftir sér, voru „fashionably late“ eins og það kallast, og höfðu líka vel efni á því með nánast uppselda tónleika á þessum rúmgóða leikvangi.

Fyrstu merki þess að til tíðinda drægi var ágætt lag andfætlinga okkar í AC/DC, It's a Long Way to the Top (If You Wanna Rock 'n' Roll) sem glumdi úr hátalarakerfi Parken. Sannindi hjá Metallica-mönnum þar auk virðingarvottar við enn eldri sveit, en AC/DC átti fimmtugsafmæli í fyrra.

Áhorfendur vel með á nótunum. Ekki fæst gefið upp hve …
Áhorfendur vel með á nótunum. Ekki fæst gefið upp hve margir sóttu Parken um helgina en leikvangurinn tekur 38.000 manns og virtist alla vega stappfullur. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Sælukennd gullsins engin nýlunda

Eftir að síðustu tónar Angus Young og félaga dóu út þurfti enga fræðinga til að greina breytingu á stemmningunni. Eftirvæntingin var slík að andrúmsloftið tók á sig lævi blandinn blæ og var eins og guðað væri á glugga í sveitum til forna þegar fyrstu tónar meistaraverks Ennio Morricone, L'estasi dell'oro, úr stórvirki allra spaghettívestra, Il buono, il brutto, il cattivo, sem flestum liggur tamari á tungu sem The Good, the Bad and the Ugly, lagði þétta en milda krumlu sína yfir Parken.

Þessi inngangur að Metallica-tónleikum er engin nýlunda, hljómsveitin hefur brugðið honum fyrir sig allar götur síðan 1983 og haldi einhver að Morricone-opnunin sé hugmynd þá partýglaðra og bólugrafinna unglinga sem ýtt höfðu úr vör thrash metal-sveit, er opnað hafði margt eyrað á svæðinu umhverfis San Francisco-flóann, er sá hinn sami á refilstigu.

Hugmyndasmiðurinn á bak við Sælukennd gullsins sem inngangsstef er enginn annar en Jon Zazula, Jonny Z, stofnandi Megaforce Records, fyrsta umbjóðanda og útgefanda Metallica. Zazula skýrði þennan lífseiga sið í viðtali við Loudwire árið 2019 og sagði þá að hann hefði viljað eitthvert inngangsstef sem næði tilfinningalegu tangarhaldi á sauðsvörtum pupulnum á tónleikum Metallica.

Ekkert annað skiptir máli og símar á loft, af sem …
Ekkert annað skiptir máli og símar á loft, af sem áður var þegar kveikjarar gegndu sama hlutverki...samt svo stutt síðan. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þetta virðist hafa verið sterkur leikur á sínum tíma hjá stofnanda Megaforce enda fór sælukennd gæsahúðarbylgja um Parken á föstudagskvöldið sem nánast mátti heyra með hefðbundnum eyrum þótt hin innri eyru skynjunarinnar hafi ef til vill lagst á árarnar.

Hornin steytt

Vitanlega ætlaði allt um koll að keyra þegar fjórmenningarnir góðkunnu stigu á sviðið og ekki leið á löngu þar til upphafslag kvöldsins hóf göngu sína með látum. Þar var ekki á ferðinni hið tiltölulega hefðbundna opnunarlag Blackened heldur Creeping Death af plötunni Ride the Lightning frá 1984 sem á sínum tíma kom út sem smáskífulag en gítarleikarinn hlédrægi, Kirk Hammett, samdi gítar-riffið fyrir Creeping Death sextán ára gamall, þá enn í hljómsveitinni Exodus.

Creeping Death verður að teljast grípandi tónleikaverk með dúndurkeyrslu enda djöflaðist áhorfendaskari, sem var að minnsta kosti á pari við íbúatölu San Marino, og sáust hornin steytt víða, þetta gamalgróna tákn rokks og róls sem Ronnie James Dio heitinn kynnti heimsbyggðinni – sumir segja Ozzy Osbourne en merkingin er alltént sú sama.

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Næst var komið að hinum meitlaða Uppskerumanni sorgarinnar, Harvester of Sorrow, af frábærri plötu, ...And Justice for All frá 1989, fjórðu plötu sveitarinnar og þeirri síðustu áður en „svarta platan“ fræga leit dagsins ljós sumarið 1991 þegar allir og amma þeirra uppgötvuðu hljómsveitina. Vissulega góð plata þegar hún síaðist inn, en af trúarofstækislegri sannfæringu viðurkenni ég aðeins fyrstu fjórar plöturnar sem hina einu sönnu sveit Metallica. Ósammála lesendur gjöri svo vel að vera mér gramir.

„Æ, ég tek þetta bara á dönsku“

Hér var komið að fyrsta ávarpi þeirra Metallica-manna en þau urðu nokkur þetta kvöldið og hressleikinn mikill. Beinast lá auðvitað við að einn helsti talsmaður sveitarinnar og forsprakki, Daninn Lars Ulrich, heilsaði löndum sínum og vafðist ekki fyrir honum að velja tungumál. „Æ, ég tek þetta bara á dönsku,“ sagði trommarinn glettnislega og fagnaðarlætin eftir því.

„Ég ólst upp í 10 – 15 mínútna fjarlægð héðan,“ hélt hann áfram, en Metallica á að baki rúmlega 30 tónleika í heimalandi Ulrichs svo líklega hefur hann greint frá þessu áður. Sagði hann svo frá því hve oft honum hefði orðið gengið fram hjá Parken sem barni og upplifunin væri því alltaf sterk að berja húðirnar þar. „Það er bara svo feitt að vera heima aftur, Danmörk!“ lauk Ulrich ávarpinu við ærandi fögnuð.

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Áfram var haldið í gamla slagarann Hit the Lights af frumburðinum Kill 'Em All frá 1983, fínt og hrátt þungarokk með góðum og grípandi takti, einkennandi fyrir byrjunarplötuna með blóðuga plötuumslaginu. Það vakti lukku og ekki síður Leper Messiah af Master of Puppets frá 1986, plötu sem líklega nýtur hylli flestra Metallica-aðdáenda sem besta platan – að minnsta kosti hefur maður heyrt flesta setja hana á toppinn í öllum þeim samtölum sem maður hefur átt um þessa hljómsveit síðustu 35 árin.

Landi og Sprite við súrefnisleysi

Aðstandendur Parken hafa marga fjöruna sopið enda þau nöfn sem þar hafa staðið á sviði með þeim allra stærstu í heimi. Segja má þeim til mikils hróss – fyrir utan frábæra og vel mannaða öryggisgæslu – að loftræsting var til fyrirmyndar og skall kaldur gustur með reglulegu millibili á áhorfendum sem varð við eins og mærinni í Bósa sögu ok Herrauðs, „svo dátt sem drukkið hefði ferskan mjöð“.

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þeir sem sóttu tónleika sveitarinnar í Egilshöll 4. júlí 2004 minnast þess ef til vill að þar var mikil brotalöm á þessu og liðu einhverjir út af á miðju gólfi þegar hitinn og súrefnisleysið surfu að. Undirritaður stóð þetta af sér og þakkar heilum lítra af landa í Sprite sem tókst að lauma inn í samankrumpaðri tveggja lítra plastflösku. Sá drykkur var undir lokin orðinn nánast við suðumark þótt hver dropi færi að lokum niður. Áfengi er áfengi.

Lagið 72 Seasons, sem næst sveif út í sjóðandi heitt andrúmsloft Parken og er af samnefndri plötu, glænýju verki frá árinu 2023 og um leið elleftu stúdíóplötu sveitarinnar, fékk hinar fínustu undirtektir en augljóst á svipmóti flestra gamlingja á aldri undirritaðs á A-svæðinu uppi í stúku að þarna voru ekki allir búnir að lesa fyrir kennslustund dagsins. Allt í fína með það og stemmningin góð.

Stríð og...rokk

If Darkness Had a Son heitir annað lag af nýju plötunni sem skartar þéttu og þrælöflugu forspili, söngurinn hefst ekki fyrr en vel er liðið á aðra mínútu. Textinn lýsir djúpstæðri eymd ljóðmælandans sem glímir við einangrun, fíkn og hrylling og sver sig þannig í ætt við meistaraverkið Master of Puppets sem þó býður upp á annan ljóðmælanda því þar talar dópið til neytandans og játar sitt rétta eðli, oft er flagð undir fögru skinni.

Fjórmenningarnir í Metallica hafa löngum fundið sér yrkisefni í átökum, ef ekki stríðsátökum þá þeim sem eiga sér stað innra með mannskepnunni. Ballaðan The Day That Never Comes af plötunni Death Magnetic frá 2008 er um stríð...eins og One, Disposable Heroes, Fight Fire With Fire og fleiri. Dagurinn sem aldrei rís er fínasta tónleikaverk og hljómburðurinn í Parken skilaði því með ágætum.

Þessar myndir koma bara út eins og þær koma út, …
Þessar myndir koma bara út eins og þær koma út, sex og hálfs árs gamall Google Pixel 2-sími eina vopnið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lagið Shadows Follow var síðasti fulltrúi 72 Seasons-plötunnar en flest verk þetta fyrra tónleikakvöld voru raunar gamlir kunningjar og tók salurinn því fagnandi, ekki síst undirritaður.

Roberto Agustín Miguel Santiago Samuel Trujillo Veracruz

Bassaleikarinn nýi...eða sem miðaldra tónleikaskríbentum finnst enn vera nýr eftir 21 ár í sveitinni, ber nánast lengra nafn en hinir þrír til samans, heitir í þjóðskrá Roberto Agustín Miguel Santiago Samuel Trujillo Veracruz þótt flestir láti Rob Trujillo duga. Þarna er með eindæmum hæfur tónlistarmaður á ferð og stemmningin hreinlega rýkur af manninum sem átti stórskemmtilegt gítareinvígi við Kirk Hammett á þessum tónleikum.

Ég viðurkenni með tár á hvörmum að ég er hættur að sakna hins svipþunga Jasons Newsted sem verður mér þó alltaf kær. Spurning með C... nei, þetta nafn þori ég nú bara ekki að nefna en blessuð sé minning fallinnar hetju sem lést í rútuslysi á tónleikaferðalagi í Svíþjóð haustið 1986.

Þar rauður loginn brann.
Þar rauður loginn brann. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Það er komið að Orion, frábæru textalausu (instrúmental) verki af Master of Puppets. Inngangurinn helþungt og hljómmikið gítar-riff sem undirritaður man eftir úr ófáum „headbang“-teitum á framhaldsskólaárunum þegar síða hárið lufsaðist enn um nú sköllóttan haus og ljúfsárar æskuminningarnar geyma nú í iðrum sér. Viðstaddir kannast vel við Orion og margir þakka líklega í hljóði fyrir að þurfa ekki að öskra sig hása með enn einu laginu og fá að hvíla raddböndin um hríð.

Ekkert annað skiptir máli

Stutt virðist síðan ballöður og önnur rómantík á tónleikum kallaði fram alla kveikjara í salnum sem fengu að loga á meðan eigandinn ekki brenndi á sér fingurgómana og raunar merkilegt að ekki hlutust stórslys af. Nú hafa snjallsímarnir með öllum sínum aukabúnaði leyst kveikjara af hólmi og verður sem bjart af degi á Parken þegar mörg þúsund farsímavasaljós eru tendruð við inngangstóna lagsins Nothing Else Matters af plötunni svörtu sem nú er jafn gömul og Jesús Kristur þegar hann lést, 33 ára.

Kirk Hammett í svarthvítu, orðinn 62 ára gamall og lætur …
Kirk Hammett í svarthvítu, orðinn 62 ára gamall og lætur engan bilbug á sér finna. Sagði nokkur orð á dönsku við gríðarlegan fögnuð. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

N.E.M. er flott rokkballaða og eitt af þekktustu verkum hljómsveitarinnar í dag. Fulltrúi „allt-var-betra-í-gamla-daga“-kynslóðarinnar, sem hér skrifar, lætur sér vel lynda en grætur í hljóði Fade to Black sem tónleikagestir sunnudagsins fengju þá klárlega að heyra. Stutt var nefnilega í tárin þegar fyrstu tónar þess meistaraverks, sem í ár er 40 ára, hljómuðu í Egilshöll í júlí 2004. Líklega var það bara Sprite-flaskan með landablöndunni rótsterku sem þá friðaði geðið.

Sad But True er annar fulltrúi þeirrar svörtu, lag sem naut vinsælda við hlið Óla lokbrár (Enter Sandman) og N.E.M. haustið 1991 og þann veturinn, allt þar til íslenskir rokkarar sprungu út í grunge-veislunni Nirvana með flaggskipinu Smells Like Teen Spirit vorið 1992. Það var nú meira fjörið...

Boltarnir á loft er líða tekur að lokum...enda Parken íþróttaleikvangur.
Boltarnir á loft er líða tekur að lokum...enda Parken íþróttaleikvangur. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þessir tónleikar á Parken á föstudaginn eru senn á enda. Liðsmenn Metallica taka að ræða við áhorfendur. James Hetfield ræðir að vanda um hve ánægjulegt sé að vera innan um hreinræktuð ættmenni Metallica-fjölskyldunnar og leggur vel í. Maðurinn er ekki 59 ára lengur, hann varð sextugur í fyrrasumar. Ber aldurinn með sóma.

Sprengjan springur

Gítarleikarinn hlédrægi Kirk Hammett kveður sér einnig hljóðs og þakkar vel fyrir sig. San Francisco-búinn gamli tekur hluta af ræðunni á dönsku við gríðarlegan fögnuð viðstaddra. Rob Trujillo talar enn lengur og ræðir hvað árin í Metallica hafi gefið honum. Mikið þakklæti til gesta í Parken. Fjórmenningarnir hafa alltaf kunnað að sinna sínum aðdáendum, hver man ekki hin frábæru lokaorð Hetfields í Höllinni, „Reykjavík, takk fyrir!“ með vænum Kaliforníuhreim.

Hetfield er alltaf jafn alþýðlegur á tónleikum og duglegur að …
Hetfield er alltaf jafn alþýðlegur á tónleikum og duglegur að sýna þakklæti gagnvart „the Metallica Family“, ættboga sem telur allmargar milljónir af heimsbyggðinni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Svo springur sprengjan á Parken. Blackened af gömlu Justice frá '89. Þrjátíu og eitthvað þúsund manns ganga af göflunum. Mannhafið niðri á gólfi sendir hreinan brotsjó um allan gólfflötinn, hlið sálarinnar opnast og gleðin flýgur óraveg yfir hafið eins og Spámaður Gíbrans byrjar svo skáldlega. Gæsahúð. Blackened er algjörlega hreinræktað tónleikaverk og þetta kvöld sveik það engan.

Í kjölfarið fylgir Fuel af Reload frá 1997 sem var sjöunda hljóðversplata Metallica og átti það lag og The Memory Remains sem nokkuð góða spretti finnst mér, en betur hugnaðist mér forverinn Load frá sumrinu áður með meistaraverkinu Until It Sleeps...eða kannski var það bara svona ofspilað á X-inu 977 það sumar að maður var neyddur á þá skoðun.

Strengjabrúðumeistarinn stígur fram

Fáir almennilegir Metallica-tónleikar eru án meistaraverksins gamla Seek & Destroy og eftir uppklapp númer tvö og það sem margir voru orðnir sannfærðir um að væru endanleg lok þessara tónleika gældi hin kunna gítarbyrjun þess við útjaskaðar hljóðhimnur gesta. Þrátt fyrir allt sem á undan var gengið skorti viðstadda, sem líklega töldu einar þrjár kynslóðir, ekki orkuna til að syngja, öskra og hoppa gegnum enn eitt meistaraverkið.

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Ljóðlínan „Snert hörpu mína himinborna dís...“ fór svo sem leiftur um huga mér í þögulli bæn þegar Seek & Destroy rann með mýkt sjálfskiptingar yfir í meitlaða gítar- og trommubyrjun Master of Puppets. Skynja mátti hreina lotningu í salnum í sekúndubrot áður en gestir Parken urðu sem andsetnir – ekki í fyrsta sinnið þetta föstudagskvöld. Flutningurinn óaðfinnanlegur, stemmningin algjörlega á heimsmælikvarða allra tónleika og það var sæll múgur sem streymdi um fjölmörg útgönguhlið Parken út í hlýtt rökkur Kaupmannahafnarnæturinnar.

Frábærir tónleikar og gestir sunnudagsins vissulega öfundsverðir af að fá For Whom the Bell Tolls, Fade to Black, Battery, One og lokalagið Enter Sandman ásamt öðru góðgæti, en getur maður öfundað hér? Einfaldast hefði verið að sjá báða tónleikana sem þúsundir gerðu. Ég þakka hins vegar fyrir mig.

Rafvirkinn í hörkustuði

„Þetta var geggjað bara, miklu betra en ég þorði að vona.“ Við erum aftur komin í sófann á Wakeup Copenhagen-hótelinu á Borgergade aðfaranótt mánudags með Gest Hjörvar rafvirkja sem viðmælanda sem fór með allt fyrirtækið á seinni tónleikana og gista hann og hans menn þar að auki allir á þessu sama hóteli.

Hið myndræna þema plötunnar Master of Puppets frá 1986.
Hið myndræna þema plötunnar Master of Puppets frá 1986. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þarna voru spiluð ákveðin lög sem ég átti ekki von á, til dæmis One,“ segir Gestur sem hafði ekkert verið að skoða lagalistann eftir föstudagstónleikana. Góð regla kannski. „Ég hef aldrei séð Metallica á tónleikum áður og þeir stungu upp á þessu strákarnir. Við létum svo bara vaða,“ segir eigandi Rafveitunnar og sér ekki eftir að hafa lagst í víking til Kaupmannahafnar með samstarfsmönnunum sem hann segir einnig hafa skemmt sér konunglega.

Og ekki er örgrannt um að fjöldi fólks minnist þessarar tónleikahelgar á Parken með hlýju, ekki síst fjölmargir Íslendingar sem stóðu sig gríðarvel í mætingu og hittust margir hverjir fyrir í upphitun á börum umhverfis Parken auk þess sem heyra mátti fjölda fólks í Metallica-stuttermabolum mæla á íslenska tungu á götum Kaupmannahafnar um helgina. Enda hefur heilinn á Íslendíngum alltaf verið í Kaupinhafn eins og Laxness skrifaði einhvers staðar.

Stemmningin í Parken á föstudaginn var einfaldlega ógleymanleg og gamli …
Stemmningin í Parken á föstudaginn var einfaldlega ógleymanleg og gamli ungmennafélagsandinn skammt undan. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur lagt hart að þér að undanförnu og átt því skilið að eiga rólegan dag og gera aðeins það sem þig langar til. Njóttu samvista við vini þína og ættingja.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur lagt hart að þér að undanförnu og átt því skilið að eiga rólegan dag og gera aðeins það sem þig langar til. Njóttu samvista við vini þína og ættingja.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir