„Leikhús er staður mennskunnar“

„Hinseginleikinn fær því sitt pláss, sem er mikið gleðiefni,“ segir …
„Hinseginleikinn fær því sitt pláss, sem er mikið gleðiefni,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það vill þannig til, án þess að það sé beinlínis þema leikársins, að hinseginleikann ber á góma í mjög mörgum verkum sem við tökum til sýninga. Annaðhvort sem áhrifavald söguframvindunnar, nú eða alls ekki, því árið er 2024 og við eigum orðið verk þar sem samkynhneigð persónanna er ekki það sem sagan hverfist um heldur eðlilegur hluti af venjulegu fjölskyldumynstri. Hinseginleikinn fær því sitt pláss, sem er mikið gleðiefni, en fjölskyldan er hins vegar leiðarstefið. Hvað er það að vera fjölskylda og hvernig eru fjölskyldur samsettar?“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir borgarleikhússtjóri spurð út í komandi leikár. Nefnir hún sem dæmi leikritið Óskaland, þar sem annar sonurinn er samkynhneigður þó að verkið snúist ekki um það. „Á móti má svo spegla Kött á heitu blikkþaki þar sem samkynhneigð annars sonarins er það sem lætur hrikta í stoðum feðraveldisins, en verkið er frá 1955.“

Segir Brynhildur burðarsýningarnar á Stóra sviðinu að mörgu leyti stýra leikárinu. „Þar erum við með stærri leikhópa og mikinn mannauð, bæði á sviðinu og baksviðs, en þetta eru þær sýningar sem höfða til fjöldans og hafa mikið aðdráttarafl.“

Eins og þekkt er orðið var sýningin 9 líf á fjölum Borgarleikhússins í fimm leikár en henni lauk í sumar þegar 250. sýningin fór fram.

„Nú höfum við kvatt 9 líf og því eru nokkrar breytingar fram undan,“ segir hún en bætir við að til hafi staðið í nokkurn tíma að gefa sýningunni Elly svigrúm að nýju. „Þetta er sýning sem hætt var með fyrir fullu húsi og snýr nú aftur fimm árum síðar vegna fjölda áskorana. Stjarna sýningarinnar, Katrín Halldóra [Sigurðardóttir],
er í millitíðinni búin að eignast tvö börn og mun skína sem aldrei fyrr.Uppsetningin er sú sama fyrir utan að Sigurður Ingvarsson tekur nú við hlutverki Björns Stefánssonar.“ Tekur hún fram að nú þegar hafi selst tæplega 7.000 miðar á sýninguna, sem hefst í september. „Það er gleðiefni og sýnir hve mikill áhugi er á sýningunni.“

Fjölskyldustefið áberandi

Fyrsta frumsýning leikársins verður 21. september þegar nýr íslenskur dramagamanleikur, Sýslumaður Dauðans, verður frumsýndur á Nýja sviðinu. „Þetta er verk fráfarandi leikskálds Borgarleikhússins, Birnis Jóns Sigurðssonar, sem hefur starfað með okkur í tvö ár. Þetta er frábært verk, súrrealismi af bestu sort. Kannski má segja að þetta sé eins og að ganga inn í málverk eftir Salvador Dalí en í grunninn er um að ræða fallega sögu feðga. Ungur maður missir föður sinn úr krabbameini en gefst tækifæri til að sækja hann aftur,“ segir Brynhildur en leikstjórn er í höndum Stefáns Jónssonar. „Verkið dansar á línu töfraraunsæis og sækir höfundurinn í brunn grískra goðsagna jafnt sem sjónvarpsspjallþátta dagsins í dag. Þarna byrjar því fjölskyldustefið hjá okkur í vetur, en verkið er í senn brjálæðislega fyndið og harmrænt.“

Með hlutverk feðganna fara þeir Pálmi Gestsson og Haraldur Ari Stefánsson en Ásgeir Trausti semur vögguvísu fyrir sýninguna. „Þarna mun Stefán í fyrsta sinn leikstýra syni sínum, Haraldi Ara, feðgar mætast í leikhúsinu.“

Brynhildur segir leikhúsið vera einhvern þann magnaðasta stað sem hugsast …
Brynhildur segir leikhúsið vera einhvern þann magnaðasta stað sem hugsast getur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsta frumsýningin á Stóra sviðinu verður 11. október þegar Óskaland eða Grand Horizons eftir Bess Wohl verður frumsýnt. Um leikstjórn sér Hilmir Snær Guðnason en að sögn Brynhildar er um að ræða dásamlega fyndið og heiðarlegt verk um fjölskylduflækjur og kynslóðabil. „Ingunn Snædal þýðir og staðfærir en Eggert Þorleifsson og Sigrún Edda Björnsdóttir fara með hlutverk hjónanna Villa og Nönnu, sem eru búin að vera saman í fimmtíu ár en ætla núna að skilja. Í upphafsatriðinu dansa þau sinn samhæfða dans þess að leggja á borð, setjast og byrja að borða þegar Nanna biður skyndilega um skilnað, sem Villi samþykkir vafningalaust. Við förum djúpt í fjölskyldustefið í þessu verki því synir hjónanna, sem þeir Jörundur Ragnarsson og Vilhelm Neto leika, skilja ekki vitleysuna í foreldrum sínum. Gamalt fólk ætti að vita betur, það skilur ekki á þessum aldri.“

Um tónlistina í verkinu sér Moses Hightower og segir Brynhildur að þetta sé sýning sem eigi eftir að gleðja fólk á víðum aldri. „Þetta er svona dæmigert verk sem við getum brosað að saman.“

Djúp þrjátíu ára ást

Á milli jóla og nýárs, sunnudaginn 29. desember, verður tímalaus klassík Tennessee Williams, Köttur á heitu blikkþaki,frumsýnd á Litla sviðinu. „Sjálf er ég með djúpa þrjátíu ára ást á Ketti á heitu blikkþaki svo að það er mér mikið gleðiefni að sú sýning fái líf,“ segir Brynhildur en leikstjóri verksins er Þorleifur Örn Arnarsson, sem snýr nú aftur í Borgarleikhúsið eftir nokkurra ára fjarveru.

„Þarna má nefna sérstaklega nostursamlega þýðingu Jóns St. Kristjánssonar, sem er margverðlaunaður bókmenntaþýðandi. Um er að ræða gullaldarklassík með mögnuðum leikhópi þar sem Hilmir Snær, Katla Margrét [Þorgeirsdóttir] og Ásthildur Úa [Sigurðardóttir] fara með aðalhlutverk. Verkið er sem fyrr segir frá 1955 en þarna er á ferðinni djúp fjölskyldusaga svo að við höldum áfram með fjölskyldustefið okkar.“ Innt eftir því hvort uppfærslan sé í klassískum búningi svarar Brynhildur bæði játandi og neitandi. „Textinn og innihaldið er klassík en handbragð leikstjóra og annarra listrænna stjórnenda mun setja tóninn. Við erum að fara inn í algjöra nánd í rafmögnuðu verki en það verður mjög áhugavert að sjá hvernig Þorleifur og Erna Mist, sem sér um leikmynd og búninga, toga okkur inn í þennan heim.“

Hátíðarsýning leikársins og jafnframt fyrsta frumsýning nýs árs er Ungfrú Ísland í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur. Um er að ræða glænýja leikgerð Bjarna Jónssonar af verðlaunaskáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur en frumsýnt verður 17. janúar, í kringum afmæli Leikfélags Reykjavíkur. Segir Brynhildur að þarna birtist saga Auðar Övu ljóslifandi á Stóra sviðinu í mögnuðu sjónarspili en Kristinn Arnar Sigurðsson sér um leikmynd og Filippía Elísdóttir búninga. „Þarna komum við líka inn á hinseginleikann og fjölskylduna. Íris Tanja Flygenring leikur skáldið Heklu, sem ítrekað er boðið að taka þátt í Ungfrú Ísland. Hekla þráir að skrifa en það reynist hins vegar fjarlægur draumur fyrir unga konu á Íslandi rétt eftir miðbik síðustu aldar, sérstaklega þegar menn vilja bara fá hana niður í Vatnsmýri á sundbol.“

Hinn unga Jón John, besta vin Heklu úr Dölunum, leikur Fannar Arnarsson sem stígur sín fyrstu skref á sviði Borgarleikhússins í vetur.

„Jón John á sér þann draum heitastan að verða búningahönnuður en ekki sjómaður en upplifir að það sé ekkert pláss fyrir hann í samfélaginu þar sem hann er samkynhneigður. Þetta er mjög áhugaverður tími sem Auður Ava velur sögunni og við erum ótrúlega þakklát að hún skuli leyfa okkur að fara höndum um vinsælustu bók sína.“ Með önnur aðalhlutverk fara þau Birna Pétursdóttir, sem leikur Íseyju, og Hjörtur Jóhann Jónsson, sem leikur Starkað, en um tónlistina í verkinu sér Unnsteinn Manúel Stefánsson.

Viðtalið í heild sinni má lesa á menn­ing­arsíðum Morg­un­blaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt erfitt með samskipti þín við opinberar stofnanir í dag. Stefndu alltaf að því að gera þitt besta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt erfitt með samskipti þín við opinberar stofnanir í dag. Stefndu alltaf að því að gera þitt besta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir