„Í Peking áttuðum við okkur á því að það er ekki mjög algengt að Íslendingar haldi tónleika þar en við fundum strax á fyrstu tónleikunum þar að íslensk tónlist var vel metin,“ segir söngkonan Lilja Dögg Gunnarsdóttir.
Lilja og hljómsveit hennar Umbra fengu að kynnast allt öðrum menningarheimi á dögunum þegar sveitin fór í tónleikaferð um Kína en á nokkrum stöðum voru textar sveitarinnar ritskoðaðir.
Auk Lilju samanstendur Umbra af tónlistarkonunum Alexöndru Kjeld, Arngerði Maríu Árnadóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur en allar eru þær með bakgrunn í klassískri tónlist.
Hjómsveitin spilaði í sex kínverskum borgum á sjö dögum en spurð hvernig þetta tónleikaferðalag á fjarlægar slóðir hafi komið til segir Lilja að kínverskur verkkaupi hafi séð hljómsveitina á tónleikum erlendis, sett sig í samband við umboðsskrifstofu sveitarinnar í Finnlandi og í kjölfarið ráðið hljómsveitina til að spila sex tónleika.
Huga þurfti að ýmsu í undirbúningi ferðalagsins en til þess að fá leyfi til að spila í Kína þurftu þarlend yfirvöld að samþykkja alla texta sem Lilja ætlaði að syngja.
„Við þurftum að senda út alla texta sem ég söng nokkrum mánuðum áður en við fórum út,“ segir Lilja. Flestir textarnir sem Lilja syngur eru á íslensku en hljómsveitin sendi sömuleiðis enskar þýðingar með þeim.
„Svo voru þeir þýddir á kínversku og við fengum bara stimplað skjal til baka frá ríkinu sem sagði að textarnir væru samþykktir.“
Þegar á hólminn var komið var málið aftur á móti ekki svo einfalt því hver borg fyrir sig hélt svo út sinni eigin ritskoðun.
„Við vorum svolítið að lenda í því að mæta á næsta tónleikastað og komast að því að einhver ákveðin lög voru ekki samþykkt. Í eitt skipti voru til dæmis fjögur lög tekin út og við vissum það ekki fyrr en samdægurs,“ segir Lilja.
Spurð hvort það hafi verið eitthvað ákveðið í lögunum sem virtist fara fyrir brjóstið á yfirvöldum segir Lilja það hafa verið mismunandi eftir borgum.
Í borginni þar sem lögin fjögur voru tekin út virtist dauðinn vera sameiginlegt þema í öllum lögunum en í annarri borg voru öll lög sem gætu mögulega á einhvern hátt vísað í lauslæti bönnuð.
Í þessum aðstæðum voru góð ráð dýr en hljómsveitin þurfti enn að leika jafn langt prógram þó svo að einhver lög hafi ekki mátt spila. Þær létu það þó ekki á sig fá og fundu út úr málunum, enda allar vel samstilltar tónlistarkonur og öflugar í spunaleik.
Það var þó ekki aðeins ritskoðunin sem var frábrugðin því sem hljómsveitin hafði áður vanist en Lilja segir að það hvernig gestir upplifðu og höguðu sér á tónleikunum hafi verið mjög ólíkt öðrum stöðum sem sveitin hefur spilað á.
„Það er mjög ólíkt að halda tónleika þarna. Það er allt öðruvísi nálgun, það er ekki þessi múr sem við erum vön hérna heldur eru áhorfendur ekkert endilega að leyfa sér það að sitja kyrrir eða neitt slíkt,“ segir Lilja og bætir við:
„Áhorfendur eru ofboðslega opnir, við fundum fyrir svo mikilli hlýju og miklu glaðlyndi.“
Þá hafði Lilja verið fengin til að læra tvö kínversk þjóðlög en þau vöktu sérstaklega mikla lukku hjá áhorfendum.
„Það var búið að biðja mig um að læra tvö þjóðlög á kínversku og það var alveg stórkostleg vinna að komast í gegnum það. Það var bara bíó þegar maður byrjaði að syngja þessi lög. Fólk byrjaði bara að fagna í miðju lagi, stóð upp og klappaði og svona.“
Loks segir Lilja að virkilega vel hafi verið staðið að öllu ferðalaginu en af lýsingum hennar að dæma var komið fram við íslensku tónlistarkonurnar eins og hálfgerðar rokkstjörnur.
„Eftir hverja einustu tónleika var labbað með okkur að háborði fram við anddyri og þar vorum við settar niður á dúkað háborð þar sem við árituðum aðgöngumiða og diska í svona 40 mínútur eftir hverja einustu tónleika. Það var alveg stórkostlegt og hvert sem við komum voru plaköt í mannhæð af okkur,“ segir Lilja og bætir við:
„Við vorum náttúrlega bara þarna, fjórar tónlistarkonur frá Íslandi, staddar í allt öðrum aðstæðum - en ótrúlega þakklátar fyrir þessar mótttökur.“
Að lokum ítrekar hún að jafnvel þó að margt hafi verið frábrugðið íslenskum veruleika hafi verið frábærlega vel staðið að tónleikahaldinu og mikið og skemmtilegt ævintýri að baki.