„Viðburðir sem hljóma í fyrstu fáránlega“

Stofnendur tónlistahátíðarinnar State of the Art. Bjarni Frímann Bjarnason, Bergur …
Stofnendur tónlistahátíðarinnar State of the Art. Bjarni Frímann Bjarnason, Bergur Þórisson og Magnús Jóhann Ragnarsson og Sverrir Páll Sverrisson. Kjartan Hreinsson

Bílaverkstæði, næturklúbbur og vinnustofa listamanns. Allt eru þetta tónleikastaðir nýrrar tónlistahátíðar sem heitir State of the Art og fer fram dagana 8. til 13. október.

Tónlistarhátíðin er óvenjuleg fyrir þær sakir að hún hefur það að markmiði sínu að fá ólíka listamenn til þess að vinna saman þannig að reikna megi með óvæntri útkomu. Þá eru líka tónleikastaðirnir oft á tíðum óvenjulegir.

Stofnendur hátíðarinnar eru Bjarni Frímann Bjarnason, Bergur Þórisson og Magnús Jóhann Ragnarsson auk Sverris Páls Sverrissonar.

Bjarni Frímann Bjarnason heldur píanótónleika inni á bílaverkstæði.
Bjarni Frímann Bjarnason heldur píanótónleika inni á bílaverkstæði. Kjartan Hreinsson

Spilað á flygil inni á bílaverkstæði

„Það sem einkennir hátíðina í ár er hvernig við setjum klassíska tónlist í annað samhengi en oft tíðkast. Bjarni Frímann mun til dæmis halda einleikstónleika á flygli inni á bílaverkstæði,“ segir Magnús Jóhann.

„Eins verður viðburður á næturklúbbnum Auto í Lækjargötu sem ber heitið Barokk á klúbbnum. Þar fá gestir hátíðarinnar að hlusta á verk eftir Bach og Vivaldi með strengjakvartett og semballeikara við undirleik trommuheilameistara. Það er ákveðinn húmor fólginn í því að hlusta á klassíska barokktónlist í umhverfi næturklúbbsins, við hrynjandi raftónlistar og umkringd ljósadýrð og reykvélum. Þetta eru viðburðir sem hljóma í fyrstu fáránlega en eru mjög skemmtilegir þegar maður er mættur á svæðið og upplifir þetta í öðru samhengi.“

Magnús Jóhann og Steingrímur Gauti myndlistamaður ætla að gera margt …
Magnús Jóhann og Steingrímur Gauti myndlistamaður ætla að gera margt skemmtilegt saman á vinnustofu Steingríms.

Tónleikar á vinnustofu listamanns

„Hátíðin snýst einmitt um það að taka sig ekki of alvarlega. Hér erum við að færa það sem venjulega er mjög alvarlegt og í þessu dæmigerða tónlistarhallarsamhengi, yfir í annan búning og sjá hvaða áhrif það hefur á upplifun gestanna. Í fyrstu kann það að vera hjákátlegt og fyndið að upplifa viðburði á borð við þessa en eftir tuttugu mínútur þá finnst manni ekkert eðlilegra en að hlusta á barokktónlist í takt við ýmis rafhljóð,“ segir Magnús Jóhann sem sjálfur verður með óvenjulegan viðburð sem lýsa má sem sambræðingi myndlistar og tónlistar. Magnús Jóhann mun spila á píanó á vinnustofu listmálarans Steingríms Gauta sem mundar um leið pensilinn og þannig eiga þeir í samtali án orða og komast í flæðisástand sem einkennir einna helst listsköpun.

Hljómsveitin ADHD og Bríet verða með skemmtilega opnunartónleika í Norðurljósasal …
Hljómsveitin ADHD og Bríet verða með skemmtilega opnunartónleika í Norðurljósasal Hörpu. Kjartan Hreinsson

Bjóða upp á nýja tónlistarupplifun

Magnús Jóhann segist stefna á að hátíðin verði haldin árlega héðan í frá. „Við ætlum að halda þessu til streitu næstu árin á meðan við nennum þessu og höfum gaman af. Það stofnar enginn tónlistarhátíð til þess að verða ríkur og það er fyrst og fremst spilagleði og ástríðan fyrir tónlistinni sem ræður för. Margir kunna að spyrja sig hvort þörf sé á enn einni tónlistarhátíðinni en staðreyndin er sú að þetta er ekki tónlistarhátíð eins og við eigum að venjast. Við erum að bjóða upp á eitthvað sem þú færð hvergi annars staðar – óhefðbundna tónleikastaði og forvitnilegt samstarf ólíkra listamanna.

Við erum ekki að stofna hátíðina til höfuðs öðrum tónlistarhátíðum á borð við Airwaves eða Jazzhátíð Reykjavíkur heldur erum við að bjóða upp á eitthvað alveg nýtt, frumlegan bræðing sem maður fær ekki á neinni annarri tónlistarhátíð, “ segir Magnús Jóhann en ítarlegra viðtal við Magnús Jóhann um hátíðina birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins 19. september. 

Kaupa má passa á hátíðina og nálgast frekari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar á heimasíðu State of the Art. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Reyndu að hafa stjórn á hlutunum þótt að þér sé sótt úr mörgum áttum. Farðu þér hægt og kynntu þér smáa letrið vel.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnar Jónasson
2
Harry Whittaker og Lucinda Riley
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Jojo Moyes
5
Moa Herngren
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Reyndu að hafa stjórn á hlutunum þótt að þér sé sótt úr mörgum áttum. Farðu þér hægt og kynntu þér smáa letrið vel.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnar Jónasson
2
Harry Whittaker og Lucinda Riley
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Jojo Moyes
5
Moa Herngren