Þrefaldi Óskarsverðlaunahafinn Daniel Day-Lewis er byrjaður að leika á nýjan leik eftir að hafa sest í helgan stein fyrir sjö árum síðan.
Hann ætlar að leika í fyrstu kvikmyndinni sem sonur hans ætlar að leikstýra.
Day-Lewis hætti að leika eftir myndina Phantom Thread sem kom út 2017.
Nýja myndin nefnist Anemone og mun sonur hans Ronan Day-Lewis leikstýra henni, að því er Guardian greinir frá. Feðgarnir skrifuðu handritið saman.
Á meðal annarra leikara verða Sean Bean, Samantha Morton, Samuel Bottomley og Safia Oakley-Green. Tökur eru þegar hafnar í ensku borginni Manchester.