„Geir var mjög ánægður og tók þessu með þökkum“

Geir Haarde tekur á móti fyrsta eintakinu af nýjustu bók …
Geir Haarde tekur á móti fyrsta eintakinu af nýjustu bók Halldórs Armand. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Lögfræðingurinn og rithöfundurinn, Halldór Armand Ásgeirsson, er að gefa út sína fimmtu skáldsögu Mikilvægt rusl. Bókin hefur mikið persónulegt gildi fyrir Halldór þar sem hún byggir á sögum frá föður hans, föðurbróður og öðrum frænda sem allir unnu við sorphirðu á sínum yngri árum.  

„Enn þann dag í dag fá þeir gleðiblik í augun þegar þeir rifja upp starfið og segja allir að þetta hafi verið besta vinna sem þeir hafi nokkurn tíma unnið.“

Lögfræðingurinn og rithöfundurinn, Halldór Armand, heldur hér á eintaki fimmtu …
Lögfræðingurinn og rithöfundurinn, Halldór Armand, heldur hér á eintaki fimmtu bókar sinnar, Mikilvæg rusl. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Afhenti Geir Haarde fyrsta eintakið

Bókin hefst þann örlagaríka dag í Íslandssögunni, 6. október 2008. Íslenskt samfélag gengur af göflunum þegar sorphirðan finnur afskorið nef og „Guð blessi Ísland“-ræða Þáverandi forsætisráðherra er í bakgrunni í fyrsta kafla bókarinnar.

Þess vegna fékk Geir Haarde afhent fyrsta eintakið. „Þau buðu mér heim til sín í kaffi og kleinur,“ segir Halldór en hann átti gott og skemmtilegt spjall við hjónin Geir og Ingu Jónu á heimili þeirra. 

Það var mikið rætt á heimili þeirra Geirs Haarde og …
Það var mikið rætt á heimili þeirra Geirs Haarde og Ingu Jónu. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Geir var mjög ánægður og tók þessu með þökkum.“

Halldór vonast til að þeir geti lesið upp saman fyrir jólin því ævisaga Geirs Haarde er einnig væntanleg og verður í jólabókaflóðinu ásamt bók Halldórs. „Hann er frábær maður.“

Díll höfunda ansi slæmur

Fyrri bækur Halldórs voru allar gefnar út af Máli og menningu. Í þetta skiptið prófar hann sjálfsútgáfu og stofnaði eigin útgáfu Flatkkökuna, en hann segist einfaldlega elska flatkökur. 

Ástæðurnar fyrir sjálfsútgáfunni eru margvíslegar en hann segist ekkert hafa á móti útgáfufélögum sem slíkum. 

„Sem höfundur fæ ég miklu meira í eigin vasa ef ég gef út sjálfur. Það er ekkert launungarmál að þessi staðlaði útgáfusamningur er mjög slæmur fyrir höfunda. Bóksala hefur dregist saman um 50% á nokkrum árum og þess vegna mikilvægt að gera tilraunir í nýjum veruleika,“ segir Halldór og bætir því að það hafi oft verið skrýtið að leggja svo mikla vinnu í bók sem fari beint í hendurnar á útgefanda, þar sem verði ákveðin aftenging við verkið. 

Halldór fjármagnar útgáfuna sjálfur og segir það áhugaverða upplifun að vera sjálfur við stjórnvölinn. Hann geti t.d. gefið sérstakan afslátt til námsmanna og bókaklúbba í gegnum heimasíðuna halldorarmand.is.   

Útgáfuhófið verður í Góða hirðinum á fimmtudaginn milli kl. 18 …
Útgáfuhófið verður í Góða hirðinum á fimmtudaginn milli kl. 18 og 20. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Góðir dómar

Bækur Halldórs hafa verið þýddar á tékknesku, frönsku, pólsku og nú síðast á tyrknesku. Síðasta bókin hans, Bróðir, hefur hlotið mjög góða dóma í Frakklandi.

Fyrir utan bókaskrifin hefur Halldór einnig verið pistlahöfundur á Rás 1 og hjá Morgunblaðinu. Kveikjan að nýjustu bókinni eru fyrst og fremst sögurnar frá sorphirðunni sem hann segist hafa alist upp við.

Aðspurður út í afskorna nefið sem er kveikja söguþráðarins segir hann föður sinn reyndar aldrei hafa fundið líkamsparta í sorpinu. Nefið er því eigin hugmyndasmíð Halldórs. 

„Bókin er skemmtisaga. Bráðfyndin og grípandi ástar- og spennusaga. Ég skemmti mér konunglega við að skrifa hana þótt undirtónninn sé alvarlegri.“

Fram til miðnættis á miðvikudag er hægt að nálgast eintak af bókinni með 10% afslætti á áðurgetinni vefsíðu Halldórs með afsláttarkóðanum RUSL10. Úgáfuhófið verður svo í Góða hirðinum á fimmtudaginn milli klukkan 18 og 20. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Unnur Lilja Aradóttir