Verkin endurspegla sálarástandið

„Ég verð að játa að þetta er mikill heiður og …
„Ég verð að játa að þetta er mikill heiður og gaman að fá þetta tækifæri. Satt að segja kom það mér á óvart að ég skyldi vera valinn því mér finnst ég svolítið hafa svikið lit með því að vera sífellt að skrifa bækur.“ mbl.is/Anton Brink

„Listasafnið sá um valið á verkunum sem verða til sýnis. Það hentaði mér vel því ég hefði ekki getað valið þetta sjálfur. Ég var í skráningarstarfi allan febrúar og tók ljósmyndir af öllum verkunum sem eru hér á vinnustofunni og skráði stærðir og ártöl. Ég sendi þeim svo listann, og líka yfir þau verk sem ég tel vera lykilverk sem og lista yfir verk í eigu safna eða úti í bæ hjá fólki,“ segir Hallgrímur Helgason inntur eftir því hvort erfitt hafi verið að velja verk fyrir yfirlitssýningu hans Usla sem verður opnuð á Kjarvalsstöðum á laugardaginn, hinn 19. október.

Segir á vef Listasafns Reykjavíkur að á sýningunni verði sjónum beint að höfundarverki myndlistarmannsins Hallgríms, sem sé raunar ekki síður þekktur fyrir ritstörf og samfélagsrýni en innan myndlistarinnar hafi sagnamaðurinn valið sér málverkið og teikninguna sem tjáningarform.

Er hann áttundi listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð safnsins á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. Blaðamaður settist niður með Hallgrími á vinnustofu hans úti á Granda og fékk að forvitnast nánar um sýninguna sem og nýjustu bók hans, Sextíu kíló af sunnudögum, sem væntanleg er í hillur bókaverslana í næstu viku.

Fór í rannsóknarleiðangur

Vinnustofa Hallgríms er björt og þar er bæði hátt til lofts og vítt til veggja. Þar má sjá litrík og fjölbreytt verk eftir hann uppi á veggjum, á trönum og í stórum bunkum hér og þar en auðséð er þó að þarna hefur ekki einungis myndlistarmaðurinn Hallgrímur vinnuaðstöðu heldur hliðarsjálfið hans líka, rithöfundurinn, því í rýminu má finna veglega og flotta bókahillu sem prýða hinir ýmsu titlar.

„Verkin mín fyrir sýninguna voru sótt í gær en það er alltaf jafn góð tilfinning þegar þau fara úr húsi, það létti aldeilis til í stúdíóinu,“ segir Hallgrímur og bætir því við að hann sakni þó þriggja verka sem ekki hafi komið í leitirnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. „Þau voru seld á sínum tíma. Eitt þeirra hékk lengi vel uppi á Gauk á Stöng en ég talaði við um þrettán eigendur að staðnum í leit minni að því,“ segir hann og hlær.

„Það er kannski erfitt að lýsa því sjálfur en mér …
„Það er kannski erfitt að lýsa því sjálfur en mér líður nú samt stundum eins og ljósmynd sem er enn að framkallast, sem er auðvitað gott. Ef maður heldur ekki áfram að þróast þá er það bara dauði.“ mbl.is/Anton Brink

„Ég var eins og rannsóknarlögregla en að lokum náði ég manni sem var við veiðar í Ameríku sem sagðist hafa selt verkið árið 2008 í Rammamiðstöðinni í Síðumúla. Þá lá leið mín í Síðumúlann en Sigurður sem rekur hana mundi ekki hverjum hann seldi verkið og þar við situr.“

Segist Hallgrímur þó feginn að hafa heyrt að verkið lægi ekki á einhverjum lager eða hefði brunnið. „Það væri gaman að sjá það aftur en verkið heitir „Garden of Late Excuses“ eða „Garður hinna síðbúnu afsakana“. Það var málað 1985, fantasíuverk sem ég var mjög ánægður með.“

Líkir álaginu við barnaafmæli

Aðspurður hvaða þýðingu það hafi fyrir hann sem listamann að fá boð um að halda slíka yfirlitssýningu segist Hallgrímur ekki hafa átt von á því.

„Ég verð að játa að þetta er mikill heiður og gaman að fá þetta tækifæri. Satt að segja kom það mér á óvart að ég skyldi vera valinn því mér finnst ég svolítið hafa svikið lit með því að vera sífellt að skrifa bækur. Ég var aktífari í myndlistinni í byrjun en svo varð þetta 50/50, skrifin og málverkin, síðan 90/10 eða 90% skrif. Á seinni árum, ekki síst í covid, komu málverkin einhvern veginn til baka til mín og þá var ég tilbúinn í þetta,“ segir hann.

„Það er búið að vera mikið álag að sinna þessu síðastliðið ár, eða allt frá því að þetta var tilkynnt, sem og að vera að klára svona mikla skáldsögu. Mér líður svona eins og ég sé búinn að vera að halda barnaafmæli á hverjum degi í heilt ár,“ segir Hallgrímur svo við skellum bæði upp úr. „Því barnaafmæli eru jú það erfiðasta sem maður gerir í nútímalífinu.“

Ljósmyndari brá á leik með Hallgrími á vinnustofu hans.
Ljósmyndari brá á leik með Hallgrími á vinnustofu hans. mbl.is/Anton Brink

Svarar deginum með já-i

Eftir stutta samveru með Hallgrími er óhjákvæmilegt að sjá og heyra að hann er jákvæður maður að eðlisfari enda segir hann lífið hafa kennt sér að sjá tækifærin frekar en læstar dyr.

„Ég reyni að nýta líka áföll til jákvæðra hluta en ég hef lent í tveimur skilnuðum og alls konar áföllum. Við misstum barnabarn í fæðingu og maður er búinn að lenda í ótrúlegum hlutum sem geta annaðhvort brotið mann eða skilað manni á nýja staði og ef maður nær að sigrast á þessum áföllum þá kemur maður bæði reynslunni ríkari út og sterkari. Allt þetta hefur maður í huga á hverjum morgni þegar maður vaknar, að svara deginum með já-i.“

En skyldi Hallgrímur þá að einhverju leyti hafa nýtt myndlistina til að mála sig í gegnum þau erfiðu verkefni sem hann hefur fengið í fangið?

„Já, maður sér svo margt í nýju ljósi þegar litið er um öxl en ég trúði því alltaf að maður ætti ekki að líta til baka, heldur bara halda áfram. En svo neyðist ég nú til að líta yfir farinn veg og horfast í augu við gömul verk. Í sumum verkunum skildi ég ekki alveg hvert ég væri að fara en ég sé það betur núna.“

Á hann þar meðal annars við þær myndir sem hann málaði eftir að hann var nýskilinn og í ástarsorg. „Þetta blasir alveg við í dag. Það má lesa áfallasögu mína í gegnum sum verkin því þau endurspegla mörg sálarástand manns. Málverkin eru kannski skyldari ljóðlistinni að þessu leyti því maður grípur alltaf til ljóða í neyð, þegar einhver deyr eða skilur við mann eða maður er nýlega orðinn ástfanginn. Þá er ljóðið alltaf fyrsta tjáningin, það bregst aldrei á örlagastundu. Ég hef ekki skrifað mikið um sjálfan mig í skáldsögunum en oft tjáð líðan mína í ljóðum og málverki.“

Eftir stutta samveru með Hallgrími er óhjákvæmilegt að sjá og …
Eftir stutta samveru með Hallgrími er óhjákvæmilegt að sjá og heyra að hann er jákvæður maður að eðlisfari enda segir hann lífið hafa kennt sér að sjá tækifærin frekar en læstar dyr. mbl.is/Anton Brink

Spurður út í það hvort hann sé þá stöðugt að þróast sem myndlistarmaður segir hann flókið að svara því.

„Það er kannski erfitt að lýsa því sjálfur en mér líður nú samt stundum eins og ljósmynd sem er enn að framkallast, sem er auðvitað gott. Ef maður heldur ekki áfram að þróast þá er það bara dauði. Algengasti ferillinn í myndlist í dag er að þú nærð að þróa einhvern stíl fyrir þrítugt og svo heldur þú þig bara við hann. Því þá ertu orðinn frægur fyrir þennan stíl og mátt ekki fara að gera eitthvað annað. Þetta átti ég alltaf mjög erfitt með því mér fannst það vera svo mikil stöðnun. Það er mikilvægt að eiga sína „frægð“ sjálfur og varðveita frelsi sitt,“ útskýrir hann.

Viðtalið í heild sinni má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt erfitt með samskipti þín við opinberar stofnanir í dag. Stefndu alltaf að því að gera þitt besta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt erfitt með samskipti þín við opinberar stofnanir í dag. Stefndu alltaf að því að gera þitt besta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir