Rapparinn Eminem bauð Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, velkominn á svið á stuðningsfundi Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, í Detroit í gær. Forsetinn fyrrverandi, 63 ára, gerði sér lítið fyrir og rappaði einn af stærstu smellum Eminem.
Eftir að rapparinn kynnti Obama á svið, hóf sá síðarnefndi ræðuna á því að vitna í lag rapparans frá árinu 2002, Lose Yourself.
Á meðan mannfjöldinn fagnaði hélt Obama ótrauður áfram að rappa byrjunina á laginu, sem hlaut Grammy-verðlaunin sem besta rapplagið árið 2004.
Rapparinn hefur verið dyggur stuðningsmaður demókrata og studdi meðal annars Obama í kosningabaráttu hans á sínum tíma.
Þá fór hann í stóra herferð til stuðnings Biden og Harris árið 2020 með yfirskriftinni: „Eitt tækifæri... Kjósið!“ Vísaði hann þar einnig í smellinn Lose Yourself.