Tökur á kvikmyndinni Reykjavik: A Cold War Saga í hinu sögufræga húsi Höfða voru í fullum gangi í morgun.
Hópur frakkaklæddra leikara sást að störfum fyrir utan húsið, auk þess sem þjóðfánar Bandaríkjanna, Íslands og Sovétríkjanna sálugu blöktu við hún. Þar var einnig svartur eðalvagn til taks.
Kvikmyndaleikararnir Jeff Daniels (The Martian og Dumb and Dumber) og Jared Harris (Chernobyl og Mad Men) fara með aðahlutverk myndarinnar. Daniels sem Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og Harris sem Mikhaíl Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna.
Þá fer Óskarsverðlaunahafinn J.K. Simmons með hlutverk George Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Leiðtogafundurinn í Höfða markaði djúp spor í heimssöguna, en fyrir 38 árum, þann 11. október 1986, hittust þeir Reagan og Gorbatsjov og funduðu dagana 11.-12. október.