Ríflega 94.000 manns hafa skrifað undir áskorun um nýtt lagafrumvarp sem snýr að geðheilbrigðisvernd og umönnun ungs fólks í tónlistarbransanum. Frumvarpið, sem ber heitið Liam's Law, var samið í kjölfar óvænts andláts breska tónlistarmannsins Liam Payne.
Frumvarpið kveður meðal annars á um að listafólk gangist undir reglubundna geðheilbrigðisskoðun, fái næga hvíld á milli tónleika og hafi aðgang að geðheilbrigðisstarfsfólki á álagstímum svo hægt sé að huga að andlegri líðan og veita viðkomandi félagslegan stuðning.
Undirskriftalistinn var birtur á vefsíðunni Change.org aðeins tveimur dögum eftir andlát Payne og hefur vakið athygli fólks víða um heim. Dyggur aðdáandi tónlistarmannsins hóf undirskriftasöfnunina.
Í yfirlýsingu á vefsíðunni segir meðal annars:
„Áhættuþættir á borð við streitu, kvíða, þunglyndi, misnotkun vímuefna og sjálfsvíg eru á hraðri uppleið, en samkvæmt rannsóknum er fólk í skemmtanaiðnaðinum tvisvar til þrisvar sinnum líklegra til að þjást af eftirfarandi kvillum.“
Payne, sem var þekktastur sem liðsmaður strákahljómsveitarinnar One Direction, lést þann 16. október síðastliðinn í borginni Buenos Aires í Argentínu. Hann var 31 árs gamall.