Glæsihýsi Matthew Perry heitins í Los Angeles hefur verið selt, einu ári eftir að hann fannst látinn í heitum potti á heimilinu. Húsið var ekki auglýst til sölu og selt í skúffunni eins og sagt er.
Nýr eigandi er Anita Verma Lallian, kvikmyndaframleiðandi og fasteignabraskari. Lallian greiddi ríflega einn milljarð íslenskra króna fyrir eignina, að sögn Los Angeles Times. Friends-leikarinn festi kaup á húsinu í júní 2020 og greiddi 850 milljónir króna.
Húsið stendur á 3.500 fm eignarlóð og hefur að geyma fjögur svefnherbergi, fallegt opið rými, eldstæði og glæsilegt útisvæði.
Perry lést þann 28. október í fyrra, 54 ára að aldri.
Morð- og ránrannsóknardeild lögreglunnar í Los Angeles hefur haft málið til rannsóknar síðustu mánuði, en fimm manns voru ákærðir í tengslum við andlát Friends-leikarans í ágúst, þ.á.m. aðstoðarmaður leikarans til margra ára.