Bandaríski gamanleikarinn Jay Johnston, best þekktur fyrir leik sinn í þáttaröðum á borð við Bob's Burgers og Arrested Development, hefur verið dæmdur í eins árs fangelsi fyrir hlutverk sitt í óeirðunum á Capitol Hill í Washington í ársbyrjun 2021.
Saksóknari krafðist þyngri refsingar yfir Johnston þar sem hann sýndi litla sem enga samkennd eða iðrun fyrir verk sín. Farið var fram á 18 mánaða fangelsisdóm.
Þann 6. janúar 2021 réðst æstur hópur stuðningsmanna Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, að þinghúsinu í Washington þegar öldungadeildarþingið var í þann mund að ganga frá formlegri staðfestingu úrslita forsetaskosninganna 2020 þar sem Joe Biden stóð uppi sem sigurvegari.
Johnston, 56 ára, var handtekinn í júní í fyrra. Hann játaði sig sekan um að hafa komið í veg fyrir aðgerðir lögreglu og einnig fyrir að hafa ráðist að lögreglumanni.