Martha Stewart, matardrottning og Íslandsvinkona, er ósátt við heimildamynd um líf hennar og störf, ef marka má nýtt viðtal sem birtist við Stewart á síðum New York Times í dag.
Í viðtalinu fer hún ófögrum orðum um leikstjóra myndarinnar, R.J. Cutler, og ýmis önnur atriði.
Myndin, sem er einfaldlega titluð Martha, var frumsýnd í New York þann 21. október síðastliðinn og hefur nú verið tekin til sýninga á streymisveitunni Netflix.
Stewart, sem er 83 ára, viðurkenndi í samtali sínu við blaðamann New York Times að hún væri lítt hrifin af seinni hluta myndarinnar og sagðist hata lokaatriði hennar.
„R.J. hafði beinan aðgang að skjalasafninu og notaði í raun mjög lítið,” sagði Stewart sem átti þó í miklu samstarfi við leikstjóra myndarinnar í gegnum vinnsluferlið. „Í lok myndarinnar lít ég út eins og einmana, gömul kona sem gengur hnípin um garðinn sinn. Ég bað hann um að fjarlægja þessar klippur. Hann neitaði því.“
Stewart sagðist einnig vera afar ósátt við hversu mikið var einblínt á fangelsisdóm hennar, en hún var dæmd í fimm mánaða fangelsi fyrir skattalagabrot árið 2004.
„Þetta var nú ekki svo mikilvægt. Réttarhöldin og fangelsisvistin voru innan við tvö ár af ævigöngu minni. Ég leit á þetta tímabil sem frí, satt að segja,“ sagði Stewart.