Fjölmiðlar hafa veitt því athygli að Harry og Meghan sjást æ sjaldnar saman. Nú síðast sendi Harry út boðskort í „jólahitting“ sem fer fram á netinu og heitir Scotty´s Little Soldiers sem eru samtök fyrir fjölskyldur þeirra hermanna sem hafa látið lífi í stríði.
Í boðskortinu segir að Harry sé meðvitaður um að jólin geti verið erfiður tími fyrir aðstandendur og vill að þeir viti að hann hugsi hlýtt til þeirra. Þá er tekið fram að þetta sé kjörið tækifæri til þess að kynnast prinsinum betur og fá að heyra hvernig hann hagi eigin jólum.
Athygli vakti að Meghan er hvergi nefnd í boðskortinu og ýtir það undir þær sögusagnir að erfitt sé í hjónabandi þeirra. Sérstaklega í ljósi þess að hún hefur áður lýst því yfir í viðtölum hversu samrýmd þau séu og fylgist að líkt og „salt og pipar“. Í ár hafa þau hins vegar ákveðið að koma fram í sitthvoru lagi. Um daginn vakti það til að mynda mikla athygli þegar Meghan sást úti á lífinu án Harry.