Brynhildur hlaut franska riddaraorðu

„Það að vaxa sem manneskja held ég að hljóti að …
„Það að vaxa sem manneskja held ég að hljóti að vera það allra mikilvægasta í lífi hvers og eins,“ sagði Brynhildur í þakkarræðu sinni í gær. Ljósmynd/Anna Margrét Björnsson

Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona, leikstjóri og leikhússtjóri hlaut í gær frönsku riddaraorðuna Chevalier des Arts et Lettres sem er æðsta viðurkenning sem veitt er af hálfu hins opinbera í Frakklandi á sviði menningar og lista.

Orðan er veitt til þess að heiðra þá sem skara fram úr í list- eða bókmenntasköpun jafnt í Frakklandi sem annars staðar.

Segir í tilkynningu að Brynhildi hafi verið veitt orðan við hátíðlega athöfn í franska sendiherrabústaðnum í Reykjavík af sendiherra Frakklands, Guillaume Bazard.

Brynhildur heiðruð.
Brynhildur heiðruð. Ljósmynd/Anna Margrét Björnsson

Tengist Frakklandi sterkum böndum

Þá hafi Brynhildur ræktað náið og sterkt samband við Frakkland, menningu þess og tungumál en hún lærði frönsku í menntaskóla, Alliance Francaise, við Háskóla Íslands og í Paul Valery-háskólanum í Montpellier.

„Brynhildur býr að farsælum og viðtækum leiklistar- og leikstjóraferli og hefur lagt ástríðu og alúð við að sinna franskri menningu. Árið 2006 lék hún til að mynda hlutverk í Ímyndunarveiki Molieres á fjölum Þjóðleikhússins og árið 2004 lék hún Edith Piaf í verki sem Sigurður Pálsson skrifaði um söngkonuna frönsku fyrir Þjóðleikhúsið og hlaut mikið lof fyrir.“ 

Brynhildur hefur frá unga aldri haft mikið dálæti á frönsku og franskri menningu en hún byrjaði sjálf að læra frönsku með alls kyns ævagömlum kennslubókum, í gegnum „linguaphone“ afa síns sem og í Námsflokkum Kópavogs þegar hún var 14 ára. Þá reynir hún að komast sem oftast til Frakklands þar sem hún á sterkar tengingar og margar ljúfar minningar.

Brynhildur ásamt Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands á Íslandi.
Brynhildur ásamt Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands á Íslandi. Ljósmynd/Anna Margrét Björnsson

Þakkaði fyrir sig á frönsku 

„Ce petit merci sera un mélange de deux langues - þessi litla þakkarræða verður blanda af þeim tveimur tungumálum sem mér eru svo kær og í raun, skilgreina mig sem manneskju. Vous qui etes ici, þið sem eruð hér, þakka ykkur botnlaust fyrir að þiggja boðið – þið sem standið hér eruð öll fólk sem leyfir öðrum vöxt! Vous etes tous des personnes qui permettent la croissance aux autres. Og það að vaxa sem manneskja held ég að hljóti að vera það allra mikilvægasta í lífi hvers og eins.


Fyrstu árin í frönskunni voru tengd námsflokkum Kópavogs, Alliance française, MR og Háskóla Íslands. Ég ætlaði að læra frönsku, þetta tungumál sem lokkaði mig alltaf til sín og sagði mér svo margt með svo margvíslegum hætti. 21 árs er ég svo komin til Suður-Frakklands á la fac de lettres í Université Paul Valéry. Ársdvöl á yndislegum stað þar sem ég komst í tæri við allt sem ég elskaði, án þess að hafa nokkra hugmynd um að ég elskaði það: djúpa sögu, miðaldabókmenntir, gömul klaustur, lavender-breiður, la mer, le soleil og allt hitt!

Í frönskunni í Háskóla Íslands var ég með stórkostlega kennara sem leiddu okkur svo langt og í einum kúrsinum þurfti að leika leikrit – á frönsku – mon premier role joué c’était la fée Morgane, soeur du roi Arthur – við lékum miðaldaleikrit í Þórscafé – ég varð heltekin!

Ég endaði leikkona á besta stað í heimi, undir stjórn Stefáns Baldurssonar í Þjóðleikhúsinu. Þar fékk ég tækifærin sem bjuggu til tenginguna. Sjálfsagt hefðum við aldrei staðið hér nema vegna þess að tækifærið til að túlka mögnuðustu söngkonu frakka Edith Piaf féll mér í skaut. Og guð hvað ég elskaði það! Við sögðum sögur og fluttum lög, við tengdum og töluðum inn í innsta kjarna. Stundum söng ég á íslensku en stundum var nóg að skilja með hjartanu og þá var sungið á frönsku og fyrir mér opnaðist alheimurinn. Margt hefur gerst síðan en þarna er upphafið,“ sagði Brynhildur á athöfninni í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur safnað að þér upplýsingum og getur nú farið að vinna úr þeim. Taktu málin í þínar hendur og leystu þau sjálfur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Kathryn Hughes
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur safnað að þér upplýsingum og getur nú farið að vinna úr þeim. Taktu málin í þínar hendur og leystu þau sjálfur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Kathryn Hughes
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup