„Þetta hefur oftar en ekki slegið mig mikið“

Söngvarinn góðkunni Geir Ólafsson hefur barist við kvíðaröskun frá blautu barnsbeini. Kvíðann ræðir hann opinskátt í Dagmálum og lýsir honum sem algerri prísund sem torvelt hefur reynst honum að vinna bug á. 

„Það er til tvenns konar kvíði. Það er til svokallaður verkkvíði og svo sjúklegur kvíði sem ég hef verið að berjast við síðan ég var barn,“ segir Geir. 

„Það er stundum þannig að ég kannski treysti mér ekki út nema með einhverjum sem ég þekki og stundum lokast ég bara og treysti mér ekki til þess að keyra heim.“

Barátta alla daga

Þrátt fyrir að Geir sé mikil félagsvera og lifi fyrir það að koma fram fyrir framan hóp af fólki þá segist hann oft og tíðum eiga erfitt með að vera innan um margmenni.

„Ég á erfitt með að vera mikið í kringum fólk. Ég þoli það mjög illa og þetta hefur reynst mér erfitt. Í rauninni hefur þetta haft þau áhrif að ég hefði geta verið kominn miklu lengra í mörgu ef ég væri ekki að berjast við þetta alla daga,“ lýsir hann en á sama tíma hefur Geir mikla ástríðu fyrir því að performera og segir sönginn eða tónleikahald ekki vera honum sérstaklega kvíðavaldandi. 

„Ég hef verið að berjast við kvíða frá því ég var sex ára gamall og þetta hefur oftar en ekki slegið mig mikið.“

Geir segir kvíðann vera orðinn hversdagslegan hluta af lífinu. Kvíðinn eigi það til að þyrma yfir án þess að gera boð á undan sér sem kunni að gera honum erfitt fyrir í hverdagslegum athöfnum.

„Versta við þetta er það að þetta kemur bara yfir mig, stundum oft í viku. Ég veit aldrei hvenær þetta kemur, þetta kemur bara allt í einu og ekki út af neinu. Þá þarf ég bara að leggjast út af og jafna mig,“ segir Geir.

„Þetta er ofboðsleg vanlíðan sem er óútskýranleg og hefur ekkert með það að gera hvort ég sé að fara syngja eða ekki,“ segir Geir sem einmitt stendur í stórræðum þessa dagana við endurútgáfu lagsins Jólamavurinn og hélt jafnframt jóla tónleikana Las Vegas Christmas Show í áttunda sinn um liðna helgi, fjóra talsins. 

Áfengi eins og olía á eldinn

Geir segist á árum áður hafa notað áfengi til þess að friða hugann og deyfa tilfinningar sínar en þegar hann tók ákvörðun um að setja tappann í flöskuna fyrir um 25 árum síðan fann hann fyrir mikilli lífsbreytingu.

„Það sem gerði það að verkum að ég fór að vinna meira í þessu var þegar ég hætti að drekka fyrir 25 árum,“ segir Geir og fór í kjölfarið í mikla sjálfsvinnu og leitaði sér læknisaðstoðar.

„Ég var að reyna að dempa þessa vondu tilfinningu og svo þegar ég hætti því að þá náttúrulega helltist yfir mig vanlíðan og alls konar hlutir sem ég þurfti að horfast í augu við og vinna með, sem var mikil áskorun. Maður verður að viðurkenna vanmátt sinn og leita sér hjálpar.“

Síðustu ár hefur Geir reynt að rækta líkama og sál og gengur reglulega til geðlæknis til þess eins að reyna viðhalda vellíðan.   

„Allt svona andlegt er svo erfitt. Þess vegna skiptir máli að eiga gott bakland og losa sig við áfengi og vímugjafa. Það á enginn að koma nálægt því. Það gerir ekkert annað en að éta þig að innan og menn sem kunna ekki að fara með það þeir tapa öllu. Það er bara spurning um tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt erfitt með samskipti þín við opinberar stofnanir í dag. Stefndu alltaf að því að gera þitt besta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt erfitt með samskipti þín við opinberar stofnanir í dag. Stefndu alltaf að því að gera þitt besta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir