Aðdáendur bandarísku spennuþáttaraðarinnar Criminal Minds geta nú tekið gleði sína á ný því að nýverið var tilkynnt að leikarinn Matthew Gray Gubler, sem aðdáendur þáttarins þekkja betur sem gáfnaljósið Dr. Spencer Reid, muni snúa aftur og endurtaka leikinn sem Reid, að vísu aðeins í einum þætti.
Criminal Minds lauk með fimmtándu seríu árið 2020 en þættirnir sneru aftur með aukaþáttaröð, titluð Criminal Minds: Evolution, árið 2022, þá án nokkurra lykilkaraktera og þar á meðal Reid.
Nýju þættirnir nutu samt sem áður mikilla vinsælda en flestir aðdáendur voru sammála um að þættirnir væru alls ekki samir án hans.
Heimildarmaður TV Line gladdi því marga þegar hann staðfesti að Gubler muni endurtaka hlutverk Dr. Spencer Reid í nýjustu þáttaröð Evolution sem lauk tökum nú á dögunum. Enn sem komið er, er lítið sem ekkert vitað um það hvernig Reid blandast inn í söguþráð seríunnar.
Síðustu ár hefur leikarinn sívinsæli snúið sér að öðrum verkefnum á öðrum vettvangi. Gubler skrifaði og myndskreytti tvær vinsælar barnabækur og hefur einnig starfað sem jógakennari og fyrirsæta.