Rapparinn frá Púertó Ríkó, Daddy Yankee, sakar eiginkonu sína um að hafa dregið að sér allt að hundrað milljónir dala af reikningum fyrirtækja hans eftir að hann tilkynnti um skilnað þeirra.
Yankee og Mireddys González hafa verið saman í 29 ár en hann hefur tilkynnt opinberlega að þau séu að skilja. Í kjölfar tilkynningarinnar er hún sögð hafa millifært háa upphæð af tveimur fyrirtækjareikningum án vitneskju eða leyfis Yankees. Þetta kemur fram í dómsskjölum sem lögð voru fram í síðustu viku í San Juan, höfuðborg Púertó Ríkó.
González starfaði áður sem framkvæmdastjóri tveggja plötufyrirtækja, stofnuð af Yankee, og systir hennar Ayeicha Conzález Castellanos var ritari og gjaldkeri fyrirtækjanna. Millifærslurnar eiga að hafa átt sér stað á fimmtudag í síðustu viku, eftir að Yankee afturkallaði heimildir þeirra systra til að fara með fjármuni fyrirtækjanna.
Yankee hefur beðið dómstólinn um að framfylgja tafarlausri brottvikningu systranna og þar með að afnema heimildir þeirra til hvers kyns afskipta í viðskiptum fyrirtækjanna.
Þá sakar Yankee González einnig um óheiðarleika er varðar viðskipti fyrirtækjanna, undirritun samninga og algjöran skort á upplýsingagjöf til sín.
Daddy Yankee, öðru nafni Ramón Luis Ayala Rodríguez, er tónsmiður, rappari og leikari og hefur átt fjöldann allan af vinsælum lögum. Frægðarsól hans reis hvað hæst í kjölfar þess að hann gaf út lagið Gassolina árið 2004.
Hann hefur unnið til 159 tónlistarverðlauna og fengið 530 tilnefningar. Þar á meðal hefur hann fengið níu tilnefningar til amerísku tónlistarverðlaunanna og hreppt þrjú verðlaun og sextán tilnefningar til Billboard-tónlistarverðlaunanna og af þeim unnið til átta verðlauna.