Einn vinsælasti rappari Bretlands, Central Cee, og áhrifavaldurinn Madeline Argy hafa verið meðal mest áberandi einstaklinga á samfélagsmiðlum undanfarið ár.
Bæði hafa þau náð gífurlegum árangri í heimalandinu og Central Cee tókst meðal annars að slá Spotify-metið fyrir vinsælasta rapplagið.
Madeline, sem er 24 ára áhrifavaldur og hýsir hlaðvarpið Pretty Lonesome, hefur byggt upp stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlinum TikTok með yfir 6,7 milljónir fylgjenda auk þess sem hún rekur vinsæla YouTube-rás.
Parið byrjaði saman árið 2022 og varð samband þeirra strax að heitu umræðuefni, sérstaklega eftir að lagið „Doja“ koma út sem innihélt vísun í kynhneigð Madeline.
Eftir stormasöm sambandsslit í júlí síðastliðnum eru orðrómar nú komnir á flug um að þau séu byrjuð aftur saman. Aðdáendur hafa tekið eftir myndböndum á TikTok þar sem þau virðast hafa verið gripin glóðvolg saman á ný.
Madeline Argy og Central Cee voru saman í rúm tvö ár áður en sambandi þeirra lauk í sumar. Sambandsslitin vöktu mikla athygli, enda hafði orðrómur um framhjáhald Central Cee með bandarísku rappstjörnunni Ice Spice gengið sem eldur um sinu á netinu.
Ice Spice og Central Cee höfðu verið mikið saman í kringum útgáfu á laginu þeirra, „Did It First“, sem olli miklum umræðum, bæði um samband þeirra og áhrifin á Argy.
Argy sagði frá því á sínum tíma að hún hefði fundið fyrir vanvirðingu og verið „notuð sem peð í PR-stríðinu“, eins og hún orðaði það.
Hún lýsti því hvernig hún upplifði sambandsslitin sem bæði óvænt og særandi, en hún gaf skýrt til kynna að hún myndi ekki fara aftur í samband með Central Cee.
Nýlega hafa hins vegar birst myndbönd á TikTok þar sem aðdáendur fullyrða að þeir hafi séð Madeline og Central Cee saman í Japan, þar sem hann kom fram á tónleikum nú á dögunum.
Þó ekkert hafi verið staðfest af þeirra hálfu, eru aðdáendur beggja nú í óða önn að rýna í smáatriði til að reyna að komast að því hvort parið hafi ákveðið að reyna aftur. Sumir halda því fram að ný TikTok-myndbönd þeirra beggja gefi óbeinar vísbendingar um að samband þeirra sé hafið á ný.
Eins og búast mátti við, eru aðdáendur klofnir í skoðunum um hvort þetta sé góð hugmynd eða ekki. Margir hafa lýst yfir von um að þau geti náð sáttum og byggt upp samband sitt á ný. Aðrir hafa verið gagnrýnir og minna á þá erfiðleika sem komu upp í sambandinu áður, sérstaklega vegna framkomu Central Cee í sumar.
Fylgst verður með framvindu málsins á næstu vikum.