Hættulegt mengi sem við lifum í

„Ég er almennt séð mjög bölsýnn á ástand heimsins en …
„Ég er almennt séð mjög bölsýnn á ástand heimsins en ég reyni að iðka búddismann þegar ég get,“ segir Tómas. mbl.is/Árni Sæberg

Gagnaleki af áður óþekktri stærð skekur heimsbyggðina og þeir sem lýsa yfir ábyrgð krefjast róttækra aðgerða í loftslagsmálum og hóta frekari gegnumlýsingum internetsins.

Nokkurn veginn svona hefst textinn aftan á bókarkápu skáldsögunnar Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson. Er hér á ferðinni fyrsta skáldsaga höfundar en áður hefur hann gefið út ljóðabókina Umframframleiðsla.

Koma úr ýmsum áttum

Í Breiðþotum tekur Tómas meðal annars fyrir öfgahópa, tæknina og loftslagsmálin en sagan hverfist þó að miklu leyti líka um þetta mannlega, vináttuna. Segir þar frá vinunum Umba og Lofti sem búa sem ungir drengir í Þorpinu þar sem áhrifa lekans gætir hjá krökkunum sem þar eiga heima.

„Þeir koma báðir úr ýmsum áttum. Þeir eru kannski þrjár manneskjur í senn en þannig bý ég yfirleitt til persónurnar mínar. Ég horfi í kringum mig og stel kannski líkamsbyggingu frá einni manneskju og hlátri frá annarri,“ segir Tómas inntur eftir því hvort vinirnir tveir eigi sér stoð í raunveruleikanum.

„Ég byrjaði kannski með tvær manneskjur í huga fyrir Umba, manneskjur sem ég þekkti í smástund og heillaðist mikið af, en svo um leið og maður byrjar að skrifa slíkan karakter þá skrifast hann alltaf lengra og lengra frá þessum manneskjum. Þegar lokaútgáfa persónunnar er komin á blað þá er hún ekkert lík þeirri manneskju sem ég kannski lagði upp með í byrjun,“ útskýrir hann.

Í Breiðþotum tekur Tómas meðal annars fyrir öfgahópa, tæknina og …
Í Breiðþotum tekur Tómas meðal annars fyrir öfgahópa, tæknina og loftslagsmálin. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Það sama á við um Loft. Hann átti upphaflega að vera aðalpersóna í nóvellu og ég byggði kannski helminginn af honum á sjálfum mér af því að hann átti að vera nokkurs konar sögumaður. En ég var einmitt að hugsa það um daginn að um leið og ég ákveð að einhver sé aðalpersóna í sögunum mínum þá verða þær einhvern veginn svolítið persónuleikalausar. Ég þori ekki að gefa þeim afgerandi persónuleika þar sem maður á að tengja við þær. Ég ákvað því að setja hann til hliðar og þá varð hann allt í einu áhugaverður. Ég fór að ýkja þessa óvirku hlið í honum upp úr öllu valdi og þá fór hann að verða mjög ólíkur mér sjálfum.“

Gagnalekinn varð fyrir valinu

Þá segir Tómas gagnalekann sem slíkan ekki hafa verið inni í verkinu í upphafi.

„Kjarnahugmyndin var vinir sem hittast eftir mjög langt skeið og stofna saman veitingastað á Austfjörðum. Þannig var allra fyrsta uppkastið, sem var töluvert styttri útgáfa af þessari bók, en það lifir eiginlega ekkert eftir af því. Inn í það skrifaði ég að það hefði orðið stór gagnaleki sem hefði óvart breytt einum litlum hlut svo fyrir næsta uppkast hugsaði ég: „En ef ég set gagnalekann örlítið framar og læt hann kannski hrista upp í heiminum.“ Þá fór að kvikna undir þessu verki og ég fór að sjá einhvers konar heild í gegnum það,“ segir hann og bætir við að í byrjun hafi handritið verið svolítið sundurslitið.

Í Breiðþotum segir frá vinunum Umba og Lofti sem búa …
Í Breiðþotum segir frá vinunum Umba og Lofti sem búa sem ungir drengir í Þorpinu þar sem áhrifa gagnaleka gætir hjá krökkunum sem þar eiga heima. mbl.is/Árni Sæberg

„Í fyrsta uppkasti var ýjað að tímaflakki og það var mikið ævintýri en ég ákvað í samtali við þau sem lásu verkið yfir fyrir mig að ég þyrfti að velja einhvern einn hlut til að bera þungann af sögunni en ekki vera með þrjá, fjóra litla hluti sem trufla hana. Þannig að gagnalekinn varð fyrir valinu en mér fannst þessi ógn og ótti spennandi því hann er hálfraunverulegur eins og staðan er í dag. Mér finnst einhvern veginn sama tilfinningin og úrvinnslufrestunin vera í gangi með gagnaleka og loftslagsmálin.

Við vitum að þessi stóru bandarísku fyrirtæki eru með allar upplýsingar um okkur og eru með algórytma og gervigreind sem veit meira um okkur en við sjálf. Það er því hálfvegis búið að leka gögnunum og þau eru jafnvel föl fyrir leyniþjónustur þannig að þetta er hættulegt mengi sem við lifum í. Við vitum að gögnin okkar eru í gangi einhvers staðar en við reynum að hugsa ekki um það og ýtum á bremsuna: „Nei, við látum þetta ekki trufla okkur í dag.“

Þess vegna fannst mér loftslagið geta komið inn í þessa jöfnu því þetta er eiginlega það sem við gerum varðandi loftslagsmálin. Það er búið að segja okkur aftur og aftur frá þeirri ógn en samt kjósum við að láta það ekki trufla okkur heldur taka bara afleiðingunum þegar þar að kemur,“ segir Tómas og tekur fram í kjölfarið að honum finnist heldur betur farið að glitta í þessa óöld sem heimurinn sé að stíga inn í vegna gróðurhúsaáhrifa og loftslagsmála.

Gæti raungerst í framtíðinni

En trúir þú að sambærilegur gagnaleki og þú lýsir í bókinni geti raungerst og þannig lagt heiminn og samfélagið sem við búum í á hliðina?

„Ég hef reyndar ekki pælt í því en ég hef stundum ímyndað mér hvernig þetta myndi líta út í ­vafranum. Færum við inn á Facebook og myndum sjá allt þar? Hvernig þetta myndi leka veit ég ekki alveg en miðað við þá gagnaleka sem hafa átt sér stað og ég hef skoðað þá eru þetta oft mjög takmarkaðir og svæðis­bundnir lekar,“ segir Tómas.

„Síðustu mánuði hefur mér þó þótt vera einhvers konar rof …
„Síðustu mánuði hefur mér þó þótt vera einhvers konar rof í heiminum sem ég skil ekki og það að Svíþjóð og Finnland hafi verið að uppfæra stríðsbæklingana sína núna á síðustu dögum gerir mig raunverulega hræddan.“ mbl.is/Árni Sæberg

„Ef við hugsum þetta eins og sjúkdóma, þar sem talað er um svæðis­bundna farsótt [e. epidemic] og heimsfaraldur [e. pandemic], þá eru flestir gagnalekar sem hafa átt sér stað eins og svæðisbundin farsótt þar sem mengið er mjög afmarkað og það er hægt að skilja hvað lak. Hins vegar er erfiðara að ímynda sér að það komi svona leki sem nái yfir heiminn.

Fælarnir yrðu svo stórir og að koma þeim áleiðis yrði mikið ­vesen. En með tilkomu gervigreindar, þó ég viti ekki hvernig tæknin muni líta út eftir fimm ár, þá er hraðinn orðinn svo rosalegur á öllu sem fram fer að ef það kemur gat einhvers staðar þá gæti hlutum verið dælt út á einhverjum hraða sem við skiljum ekki. Ég held því að í framtíðinni sé þetta alveg mögulegt,“ segir hann og nefnir í framhaldinu að bókin komi þó eflaust upp um hann sem bölsýnismann.

„Ég er almennt séð mjög bölsýnn á ástand heimsins en ég reyni að iðka búddismann þegar ég get. Þar er trúin á að lífið sé sársauki og þetta er svolítið myrk trú en í heildina er verið að iðka hið góða, vonina, innan um sársaukann og bölsýnina. Ég held að ég hefði ekki skrifað þessa bók ef ég hefði ekki von eða einhvers konar trú á örlögum okkar.

Síðustu mánuði hefur mér þó þótt vera einhvers konar rof í heiminum sem ég skil ekki og það að Svíþjóð og Finnland hafi verið að uppfæra stríðsbæklingana sína núna á síðustu dögum gerir mig raunverulega hræddan.“

Viðtalið birtist fyrst í Bókablaði Morgunblaðsins, sem kom út 29. nóvember, en þar má finna viðtalið í heild.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú munt fá góða hugmynd um hvernig hægt sé að bæta ákveðna hluti heima. Þú færð eitthvað gefins í dag sem mun kæta þig mikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú munt fá góða hugmynd um hvernig hægt sé að bæta ákveðna hluti heima. Þú færð eitthvað gefins í dag sem mun kæta þig mikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson