Skrípið er heiti nýrrar skáldsögu eftir Ófeig Sigurðsson. Ófeigur hefur vakið mikla athygli fyrir bækur sínar og hlaut til að mynda Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2014 fyrir skáldsöguna Öræfi. Hann segir hér í bili skilið við sögulegar skáldsögur og tekst nú á við samtímann. Tónskáld undirbýr tónleikaferðalag en festist í sóttkví í Belgíu. Ófeigur segir fyrirmynd tónskáldsins vera raunverulega persónu.
„Einn aðalþráður bókarinnar er sjálfsvaldið, mikilvægi þess að hugsa sjálfstætt og lifa frjáls. Að ríkisvaldið hafi ekki vald yfir líkama þínum eða sálinni. Ef maður ræður ekki yfir líkama sínum þá erum við ekki á góðum stað,“ segir Ófeigur.
„Ég hitti kanadískan mann sem varð strandaglópur í Belgíu þegar samkomutakmarkanir voru vegna heimsfaraldursins. Hann var að leggja upp í tónleikaferðalag, svokallað friðarferðalag, og var bókaður um alla Evrópu þegar öllu var skellt í lás. Honum var það ólöglegt að snúa aftur til síns heima nema ríkið fengi að breyta DNA-keðjunni hans, að hans sögn.“
„Þá hreif mig einnig hvernig þessi gamli maður talaði gegn valdinu. Ég hafði aldrei heyrt neinn mótmæla takmörkunum með jafnafgerandi hætti og fannst rödd hans svo áhugaverð að ég gat ekki annað en nýtt mér hana í sögunni. Þetta er rödd sem var almennt þögguð niður í heimsfaraldrinum.
Ég hef að vissu leyti skapað skrípi með þessari skáldsögu því honum var þetta ekkert gamanmál. En þessi rödd var þögguð niður því hún samræmdist ekki stefnu stjórnvalda svo ég vildi veita henni brautargengi innan vébanda skáldskaparins.“
Viðtalið birtist fyrst í Bókablaði Morgunblaðsins, sem kom út 29. nóvember, en þar má finna viðtalið í heild.