„Leikaraveislu,“ segir Gísli Örn Garðarsson leikstjóri Yermu, jólasýningar Þjóðleikhússins í ár, inntur eftir því við hverju áhorfendur megi búast en sýningin var frumsýnd í gær, á annan í jólum, á Stóra sviðinu.
Svar Gísla er bæði stutt og laggott enda segir hann leikhópinn í verkinu einfaldlega frábæran en með hlutverk fara þau Nína Dögg Filippusdóttir, Björn Thors, Guðjón Davíð Karlsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir.
„Svo er verkið í stórkostlegri og brakandi ferskri þýðingu Júlíu Margrétar Einarsdóttur,“ bætir hann við.
Yerma er í senn leiftrandi, áleitið og átakanlegt nútímaverk sem byggist á samnefndu meistaraverki Federicos García Lorca frá árinu 1934, sögu sem gerist í spænsku sveitasamfélagi.
Höfundur leikritsins, Simon Stone, flytur hins vegar atburðarásina inn í borgarsamfélag samtímans en verkið segir frá Yermu, konu í blóma lífsins, sem gengur vel í starfi og á mann sem hún elskar. Það eina sem vantar er barn. En það sem virðist svo eðlilegur hluti af lífinu reynist ekki sjálfsagt og því lengri sem biðin verður því meira eykst löngunin eftir barni, löngun sem verður að þrá og síðar þráhyggju, þar til smám saman hún missir tökin.
Í einleiknum Ég hleyp, sem frumsýndur var í Borgarleikhúsinu í febrúar árið 2022, lék Gísli sjálfur föður sem tókst á við barnsmissi með því að byrja að hlaupa. Þar glímdi hann við hlutverk þar sem missir, ranglæti og varnarleysi einstaklingsins var í forgrunni, ekki ólíkt því sem Yerma þarf að kljást við í sínu lífi. Spurður hvort hann þurfi að huga að einhverju sérstöku þegar fengist sé við svo viðkvæm málefni sem snerti marga svarar Gísli því til að eins og með alla hluti þurfi maður að nálgast þá af ákveðinni nærgætni.
„Með aldrinum fjölgar því miður áföllum í lífi manns og það kannski togar mann í átt að verkum sem þessum. Að skoða þessa brothættu línu milli þess sem er dásamlegt og hræðilegt,“ segir hann.
„Starf okkar felst í því að setja sig inn í aðstæður fólks af mismunandi toga, bæði út frá eigin raunveruleika og aðstæðna sem maður þekkir ekki. Í verkinu fylgjum við þessu ákveðna fólki eftir og Yerma hefur, eins og maður kannast sjálfur við, ætlað sér að tímasetja lífið eftir sínum hentugleika. En svo ræður maður ekki gangi náttúrunnar og er svo kannski búinn að missa af lestinni þegar maður sjálfur er tilbúinn.
Það er einmitt í eðli okkar sem vinnum í þessu fagi að skoða inn í hugarheim og líf þess fólks sem við erum að takast á við hverju sinni,“ útskýrir hann og bætir við að það sé einmitt það sem sé svo gefandi við starfið og geri það fjölbreytilegt.
Talið berst að nýju að leikhópnum sem Gísli segir að hafi gengið vonum framar að velja.
„Það eru margir þarna sem ég vinn oft með og hef unnið með áður. Þegar maður er að setja saman sterkan leikhóp vill maður hafa fólk sem getur funkerað vel í slíku umhverfi og er hópspilarar því einhvern veginn þurfum við að segja þessa sögu saman. Það er því mikil leikhópastemning yfir þessu verki, ólíkt því þegar ég var að gera einleikinn Ég hleyp, þá var auðvitað engin leikhópastemning. Þá var ég bara einn í leikhópnum, ég og besti vinur minn hlaupabrettið,“ segir hann og hlær.
„Mér finnst mikilvægt að vinna með fólki sem mér finnst uppbyggjandi að vera í kringum, hvort sem það er í Frosti, Elly, Verbúðinni, Jólaboðinu eða hverju sem er. Það gerist svo margt óvænt þegar maður fær að vinna með góðum leikurum því þá verður alltaf eitthvað til sem maður getur ekki séð fyrir sjálfur.“
Með hlutverk Yermu fer Nína Dögg, eiginkona Gísla, svo blaðamaður stenst hreinlega ekki mátið að spyrja hann klassískrar spurningar sem hann hefur að eigin sögn fengið að heyra síðan þau komust inn í sama bekk í Leiklistarskólanum árið 1997; hvernig það sé fyrir þau hjónin að takast á við þessi hlutverk á sviðinu, það er að hann sé að leikstýra henni?
„Líf okkar hefur alltaf verið fléttað saman á þennan hátt. Við erum hluti af þessari hljómsveit sem við stofnuðum fyrir öllum þessum árum sem heitir Vesturport og innan þess tökum við að okkur mismunandi hlutverk. Við Nína vinnum oft saman enda hefur það gefist einstaklega vel og hið sama gildir um aðra lykilleikara Vesturports. Við vinnum vel saman og ekki síst tölum við hispurslaust hvert við annað í hópnum, við reynum að halda hvert öðru á tánum,“ segir hann kíminn.
Aðspurður segist Gísli færa verkið inn í íslenskt samfélag og veruleika.
„Þetta er verk sem gerist í nútímanum og í okkar tilfelli gerist það í okkar nánasta umhverfi. Verkið er klassískt að mörgu leyti því það tekst á við stórar tilfinningar sem eiga rætur aftur í elstu sögusagnir, grísku harmleikina og kómedíurnar. Það er því bæði léttur og þungur tónn í verkinu. Þetta er skemmtilegur texti og mikill leikaradjús með þessari góðu blöndu af snerpu og litríkri mannlegri áferð. Þarna er á ferðinni samskiptamáti sem er nálægur okkur sjálfum.“
Leikstjóra- og leikaraferill Gísla er bæði langur og glæstur enda hefur hann tekið að sér ýmis verkefni, bæði hérlendis sem og á erlendri grundu. En hvort skyldi nú vera skemmtilegra, að vera í hlutverki leikstjórans eða leikarans?
„Þetta er svolítið eins og að bera saman epli og appelsínur. Á sama tíma get ég þó sagt að ástæðan fyrir því að ég tók að mér þetta verk er sú að hér er á ferðinni einstaklega gott leikaraverk. Sem leikari veit ég hversu krefjandi það er að fá verkefni þar sem leikarinn er algjörlega í fyrirrúmi og þá finnst mér stundum þakklátt að vinna að sýningu eins og þessari sem er mun berskjaldaðri en til dæmis Frost þar sem ég þarf að setja mun meiri fókus á að skapa leikhúsævintýrið í kringum söguna.
Í Yermu þarf ég meira að passa að þvælast ekki fyrir leikurunum en samt ná að lyfta sýningunni upp þannig að þeir geti fengið að gera það sem þeir gera best, sem er að túlka þessar persónur. Þau eiga þetta sammerkt, verk eins og Yerma, Ég hleyp eða Fólk, staðir og hlutir. Þau kjarnast í kringum góða leikara sem geta sagt manni sögur, hreyft við manni og fengið mann til að hlæja og gráta með sekúndu millibili.“