Manneskjan rennur í gegnum mig

„Verkið heldur sér eins og það er, það gerist í …
„Verkið heldur sér eins og það er, það gerist í amerísku samfélagi en er þó pínulítið tímalaust. Áherslan er sett á manneskjurnar og þeirra baráttu. Uppsetningin er því hvorki íslensk né bandarísk heldur er fókusinn settur á fólkið.“ Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Tímalaus klassík Tennessee Williams, Köttur á heitu blikkþaki, er jólasýning Borgarleikhússins í ár en verkið, í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, verður frumsýnt á Litla sviðinu í kvöld, laugardaginn 28. desember.

Blaðamaður settist á dögunum niður með þeim Hilmi Snæ Guðnasyni og Ásthildi Úu Sigurðardóttur, sem bæði fara með burðarhlutverk í sýningunni, hann sem fjölskyldufaðirinn Stóri-Pabbi og hún sem Maggie, kötturinn sjálfur, tengdadóttir hans.

Hilmir Snær segir persónu sína í verkinu margslungna: „Stóri-Pabbi er …
Hilmir Snær segir persónu sína í verkinu margslungna: „Stóri-Pabbi er svona „self-made man“. Ljósmyndir/Hörður Sveinsson

„Þetta er eitt af þessum klassísku verkum, snilldarverkum eða „well-made plays“ eins og svona vel skrifuð handrit voru kölluð. Þetta verk fellur vel í þá kategoríu því textinn er mjög góður og það er vel uppbyggt en í því er að finna bæði flottar persónur og skrýtnar,“ segir Hilmir Snær.

„Já, og það eru mikil átök í því en líka húmor. Þetta er stór og mikil saga og mikið gæðaleikhús því þetta er svo gott verk; textinn, aðstæðurnar og flækjurnar en einnig er mikil nálægð við áhorfendur,“ bætir Ásthildur Úa við.

„Akkúrat. Þetta er einmitt sett upp þannig að það er hringsvið og við leikum í miðjunni á meðan áhorfendur sitja allan hringinn. Við erum að leika í fornaldararenunni og það er ákveðin áskorun,“ segir Hilmir Snær og hlær. „En þetta er svo gott verk, hvert sem litið er. Allar persónur eru meitlaðar í stein svo þetta er alveg ofboðslega flott.“

Erfðadeilur og sálarflækjur

Köttur á heitu blikkþaki segir frá því þegar fjölskylda ein kemur saman til að fagna stórafmæli föðurins. Þegar líða fer á kvöldið fer fögnuðurinn þó fljótt að snúast upp í andhverfu sína þar sem erfðadeilur, sálarflækjur og kynferðisleg spenna leiða persónur verksins á tilfinningaleg jarðsprengjusvæði, þar sem baráttan fyrir tilverunni, frelsinu og sannleikanum tekur yfir.

Maggie er ung kona sem elskar eiginmann sinn Brick, hinn drykkfellda son Stóra-Pabba, svo heitt að hún er tilbúin að leggja allt í sölurnar til að fá ást sína endurgoldna, meðal annars með því að beita lygum og blekkingum. Þá hefur sýningin aðeins einu sinni áður verið sett upp í atvinnuleikhúsi hérlendis og var það árið 1997 þegar Margrét Vilhjálmsdóttir fór með hlutverk Maggie og Erlingur Gíslason lék pápann.

Ásthildur Úa fer með hlutverk kattarins sjálfs, ungrar konu sem …
Ásthildur Úa fer með hlutverk kattarins sjálfs, ungrar konu sem þarf daglega að berjast fyrir lífi sínu. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Spurð út í það hvernig þau nálgist hlutverk sín og takist á við túlkunina svarar Hilmir Snær því til að í hvert sinn sem leikari túlki nýja persónu sé gott að byrja á því að horfa á og skynja hvert höfundurinn sé að fara, með því að rýna til dæmis í textann.

„Svo tekur maður eitthvað frá sjálfum sér, eitthvað frá skáldinu og eitthvað frá leikstjóra og þannig verður til persóna á endanum.“ Ásthildur Úa kinkar kolli til samþykkis og segist ekki geta orðað þetta mikið betur.

„Þetta er einmitt svolítið púsluspil og ferli. Það er ekki eitthvað eitt sem maður gerir alltaf eða einhver ein lausn. Ég er sífellt að kynnast manneskjunni sem ég er að fara að láta renna í gegnum mig og það er alltaf svolítið ferðalag. Maður veit svo ekki alltaf hvenær það smellur,“ segir hún.

„Einmitt, þetta er púsluspil og á meðan maður er að flokka hvað maður ætlar að nýta og frá hverjum þá er þetta svolítið eins og dótakista,“ skýtur Hilmir Snær inn í.

Þá segjast þau hvorugt finna fyrir aukinni pressu að fara með hlutverk í svo þekktu og klassísku verki sem sýnt hefur verið um allan heim.

„Nei, alls ekki. Þetta er bara opið til túlkunar,“ segir Hilmir Snær og nefnir í framhaldinu að leikarar séu í raun eins og túlkar. „Maður reynir að láta þetta renna í gegnum sig eins og maður sjálfur er best fær um í hvert skipti.“

Margslungnar persónur

Verkið gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna í kringum 1950 og hverfist sem fyrr segir um fjölskylduna, flækjur, deilur, þöggun og lygar, en með önnur hlutverk fara þau Halldór Gylfason, Hákon Jóhannesson, Heiðdís Hlynsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Sigurður Ingvarsson.

„Stóri-Pabbi er svona „self-made man“. Maður sem byggir veldi sitt upp frá grunni en svoleiðis menn eru oft alveg ofboðslega stoltir af sjálfum sér fyrir að hafa komið úr engu og orðið að einhverju. Hann er einmitt þannig maður og í kringum hann er fólk sem honum finnst kannski ekki alveg fært um að taka við af sér. Við þekkjum svona mýtur og svona sögur, sérstaklega frá Ameríku þar sem ameríski draumurinn lifir góðu lífi. Stóri-Pabbi er því sá sem á allt og getur allt en svoleiðis menn verða líka oft spilltir,“ útskýrir Hilmir Snær og tekur fram að persónan sé margslungin.

„Hans fortíð er brotin svo hann er það líka og það er pínu hroki í kallinum. Hann er einnig smá bóndi í sér, svona úthverfagæi, þótt hann sé orðinn fínn háklassamaður.“

Sigurður Ingvarsson og Ásthildur Úa Sigurðardóttir í hlutverkum sínum sem …
Sigurður Ingvarsson og Ásthildur Úa Sigurðardóttir í hlutverkum sínum sem Brick og Maggie. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Maggie er hins vegar sprottin úr allt öðru umhverfi en flest hinna. Hún er alin upp í mikilli fátækt og er því mikið í mun að fá hlutdeild í auðæfum Stóra-Pabba.

„Hún hefur ekki fengið allt upp í hendurnar og það er smá götustelpa í henni. Hún er alin upp við alkóhólisma og hefur alltaf þurft að berjast fyrir lífi sínu. Það bitnar svolítið á öðru fólki í kringum hana því fyrir vikið veður hún yfir aðra til þess að reyna að bjarga sjálfri sér. Það er auðvitað smá skakkt en eins og fyrr segir bara hluti af því að reyna að halda sér á lífi. Hún er aldrei slök því hún hefur aldrei fengið að vera það, hún er alltaf að berjast,“ segir Ásthildur Úa og Hilmir Snær skýtur því inn í að margt sé þó líkt með persónum þeirra.

„Í grunninn er einhver strengur þarna sem er keimlíkur, það eru einhver líkindi þarna á milli þeirra,“ segir hann til útskýringar.

Spurð út í það hvort sýningin sé á einhvern hátt færð inn í íslenskan samtíma og aðstæður segja þau svo ekki vera.

„Verkið heldur sér eins og það er, það gerist í amerísku samfélagi en er þó pínulítið tímalaust. Áherslan er sett á manneskjurnar og þeirra baráttu. Uppsetningin er því hvorki íslensk né bandarísk heldur er fókusinn settur á fólkið.“

Viðtalið í heild sinni birtist í Morgunblaðinu í gær, föstudaginn 27. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio