Raunveruleikastjarnan Brandi Glanville, sem er best þekkt fyrir þátttöku sína í sjónvarpsþáttaröðinni The Real Housewives of Beverly Hills, ræddi opinskátt um einkalíf sitt í hlaðvarpsþætti sínum, Brandi Glanville Unfiltered, nú á dögunum. Glanville viðurkenndi meðal annars að hafa ekki stundað kynlíf í rúmt ár og sagði það vera vegna afmyndunar í andliti.
Glanville, sem er 52 ára, var greind með ofsabjúg, sem er ofnæmissjúkdómur, á síðasta ári og hefur forðast náin samskipti við fólk síðan.
„Ég hef ekki stundað kynlíf síðan í október á síðasta ári. Ég hef ekki kysst neinn. Ég hef ekki umgengist fólk, í alvöru talað,“ sagði hún, en Glanville vonast þó til að breyta þessu sem fyrst.
„Læknirinn minn sagði mér að það gæti tekið fimm ár fyrir andlitið að jafna sig. Ég nenni ekki að bíða svo lengi.“
Glanville var gift leikaranum Eddie Cibrian á árunum 2001 til 2009. Hjónin skildu þegar upp komst um framhjáhald Cibrian með söngkonunni Leann Rimes.