Nú styttist óðum í Söngvakeppni sjónvarpsins, en föstudaginn 17. janúar verður hulunni svipt af þeim tíu lögum sem hafa verið valin til þáttöku og munu etja kappi í beinni útsendingu þrjú laugardagskvöld í febrúar.
Fyrri undanúrslitin eru 8. febrúar, seinni undanúrslitin 15. febrúar og úrslitakvöldið þann 22. febrúar þar sem framlag Íslands til Eurovision í Basel í Sviss í maí verður valið
Í ár verður nýtt fyrirkomulag í Söngvakeppninni. Í undanúrslitunum keppa fimm lög hvort kvöld þar sem þrjú lög komast áfram eftir símakosningu landsmanna. Það verða því sex lög sem keppa til úrslita en ekki fimm eins og áður þar sem fimmta lagið var svokallað „wild card“ lag sem RÚV valdi í úrslitakvöldið.
Undanfarin ár hafa tvö efstu lögin í fyrri kosningunni á úrslitakvöldinu farið í svokallað einvígi þar sem lögin voru flutt aftur og áhorfendur fengu að kjósa á milli laganna í nýrri kosningu. Í ár verður einvígið fellt niður og aðeins ein símakosning almennings stendur yfir allt kvöldið. Alþjóðleg dómnefnd, skipuð sjö erlendum aðilum, mun vega 50% á móti símakosningunni. Að lokum stendur stigahæsta lag kvöldsins uppi sem sigurvegari Söngvakeppninnar 2025.
Rúnar Freyr Gíslason, framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar, segir þessa aðferð vera notaða bæði í forkeppni Svía, Melodifestivalen, og í Eurovision-keppninni sjálfri. „Við erum mjög spennt fyrir því að taka upp sænsku leiðina með þessu nýja fyrirkomulagi og höfum trú á að úr verði enn meira spennandi keppni, sérstaklega þegar kemur að birtingu úrslitanna en þau verða birt eins og í Eurovision keppninni þar sem áhorfendur sjá stöðu laganna breytast þegar símaatkvæði almennings koma inn,“ segir Rúnar Freyr.
Söngvakeppnin snýr aftur í kvikmyndaver RVK Studios í Gufunesi þar sem keppnin var haldin árin 2022 og 2023 og verður mikið lagt upp úr sviðssetningu og framkvæmd keppninnar. Þau Thomas Benstem og Selma Björnsdóttir verða listrænir stjórnendur Söngvakeppninnar og þau Benedikt Valsson, Fannar Sveinsson og Guðrún Dís Emilsdóttir snúa aftur á svið sem kynnar.
Rúnar Freyr bindur miklar vonir við að keppnin verði glæsileg í ár.
„Það verður frábært að fá þau Gunnu Dís, Benna og Fannar aftur á sviðið og svo hlökkum við mikið til að sjá afrakstur leikstjóranna Selmu og Thomas sem hafa af mikilli reynslu að miðla þegar kemur að svona stórum viðburðum. Mestu máli skiptir samt auðvitað að keppnin mun skarta tíu nýjum íslenskum lögum fluttum af afbragðs tónlistarfólki sem verður spennandi að kynna fyrir áhorfendum. Við lofum frábærri skemmtun fyrir alla fjölskylduna,“ segir Rúnar Freyr.