Það er ekki auðvelt að öðlast frægð og frama á unglingsaldri. Það getur jafnvel verið uppskrift að harmleik. Það gerðist í lífi Edwards Furlongs. Hann öðlaðist heimsfrægð eftir leik sinn í Tortímandanum 2 en eftir það tók vímuefnaneysla öll völd og eyðilagði líf hans.
Leikarinn er orðinn 47 ára og segist loks hafa fengið annað tækifæri í lífinu eftir að hafa verið í viðjum eiturlyfja í áratugi. Hann hefur verið nokkuð í fréttum í tilefni af hryllingsmyndinni The Forest Hills þar sem hann fer með hlutverk, en myndin er sú síðasta sem leikkonan Shelley Duvall lék í. Fyrir skömmu var frumsýnd heimildamyndin Edward Furlong og The Forest Hills sem fjallar um leikarann og gerð kvikmyndarinnar.
Furlong öðlaðist heimsfrægð árið 1991, þá 13 ára gamall, þegar hann lék hinn unga John Connor í myndinni Tortímandinn 2: Dómsdagur. James Cameron leikstýrði og auk Furlongs voru Arnold Schwarzenegger og Linda Hamilton í aðalhlutverkum. Myndin sagði frá baráttu Johns Connors og móður hans við að bjarga mannkyninu úr klóm vélmennaógnar.
Cameron vildi fá óreyndan leikara í hlutverk hins unga Johns Connors. Furlong hafði ekki komið nálægt leiklist þegar hann fór í áheyrnarprufu og Cameron skynjaði að Furlong væri greindur og skapmikill og vildi að þeir eiginleikar skiluðu sér í túlkun hans. Furlong fór í leiklistartíma, lærði spænsku, var kennt á mótorhjól og að handleika byssur.
Þetta var fyrsta kvikmynd Edwards Furlongs og frammistaða hans hefði átt að leiða til farsæls ferils og verðlauna en reyndin varð önnur. Hann hlaut vissulega verðlaun fyrir leik sinn í Tortímandanum en nokkrum árum seinna var líf hans í rúst.
Fjölskylduaðstæður hans voru afar slæmar og hann bjó aldrei við öryggi sem barn. Móðir hans, sem hefur aldrei gefið upp faðerni hans, sendi hann tólf ára gamlan í fóstur til systkina sinna. Hann var á stöðugum þvælingi og fannst hann hvergi tilheyra. Líf hans einkenndist af einsemd og óhamingju og enginn var til að gæta hans.
Furlong segist hafa leiðst út í eiturlyfjaneyslu sem táningur vegna þess að sér hafi liðið eins og hann væri utangátta. Hann hefði heldur ekki kunnað að bregðast við frægðinni og ríkidæminu sem kom í kjölfar leiks hans í Tortímandanum. Hann segir að hann hefði líklega ekki tekið þær vondu ákvarðanir sem hann gerðist sekur um hefði hann orðið frægur fullorðinn maður. „Þegar ég var ungur voru ekki margir til að gæta mín, mér var leyft að ganga lausum. Ég var aldrei venjulegur táningur. Líf mitt var mjög óeðlilegt. Ég var eins og skapaður fyrir eiturlyfjaneyslu. Mér fannst ég aldrei passa neins staðar,“ sagði hann nýlega. Leikstjórinn Tony Hill, sem leikstýrði Furlong í myndinni A Home of Our Own, sagðist aldrei hafa unnið með barni sem hefði borið það jafn sterkt með sér að vera á leið til glötunar.
Fimmtán ára hóf Furlong samband við kennara sinn, Jacqueline Domac, sem var 29 ára gömul. Þau fluttu saman en leiðir skildi árið 1999 og hún sakaði hann um að hafa beitt sig ofbeldi. Furlong hafði þá glímt við eiturlyfjafíkn um nokkurt skeið. Hann byrjaði á marijúana, áfengi og ofskynjunarsveppum og um tvítugt bætti hann við kókaíni og heróíni. Við tóku hörmungarár og handtökur, þar á meðal fyrir að hafa reynt að frelsa humra þar sem þeir voru í sýningarglugga.
Hann kvæntist leikkonunni Rachael Bella og eignaðist með henni soninn Ethan. Þau skildu eftir þrjú ár. Hann fékk á sig nálgunarbann eftir að hafa í eiturlyfjavímu kýlt hana í andlitið. Hann tók upp samband við leikkonuna Monicu Keena og var handtekinn nokkrum sinnum fyrir að beita hana ofbeldi og dæmdur í fangelsi. Einn eitt hneykslið varð þegar sex ára sonur hans var greindur með kókaín í blóði eftir að hafa verið í heimsókn hjá föður sínum. Eftir það fékk Furlong eingöngu að sjá son sinn undir eftirliti.
Amfetamínneysla varð til þess að hann missti svo að segja allar tennur en fór ekki í tannviðgerðir fyrr en seint og síðar meir og hafði þá margoft verið myndaður tannlaus.
Árið 2017 fór Furlong í langa meðferð sem varð árangursrík og hefur ekki horfið aftur til fyrra lífernis. Hann segir stórkostlegt að vera enn á lífi því hann hafi nokkrum sinnum verið í lífshættu vegna lífernis síns.
„Mér finnst notalegt hversu einfalt líf mitt er orðið. Ég vakna og þarf ekki að hafa áhyggjur af að lenda í fangelsi. Ég kom illa fram við marga þegar ég var í eiturlyfjaneyslu, það er langt ferli að öðlast aftur traust þess fólks. Fólk er samt að byrja að treysta mér á ný. Það er frábært og hlutirnir eru að færast í samt lag,“ segir hann.