Karen Spencer hertogynja setti kærustu eiginmanns síns ákveðin mörk meðan skilnaðurinn var ekki genginn í gegn að fullu. Hertogynjan bjó enn með eiginmanni sínum og vildi síður þurfa að rekast á kærustu hans á landareigninni.
Þetta kemur fram í skilnaðarskjölum hjónanna sem tímaritið Hello birtir. Í skjölunum er til dæmis vitnað í tölvupóst sem hertogynjan sendir kærustunni sem heitir Cat Jarman.
„Ég er ekki viss hvað Charles hefur sagt þér en ég vil ekki að þú sért hér í Althorp á meðan ég bý hér enn. Þar dreg ég línuna og bið þig um að virða þessi mörk. Það er ekki sanngjarnt gagnvart mér eða dóttur minni. Þá er ekki hægt að ætlast til þess að starfsfólkið okkar, sem er í öngum sínum yfir þessum skilnaðarfréttum, þjóni hjákonu Charles. Það er bara of stór bón til þess að verða við,“ skrifar Karen Spencer til Cat Jarman.
Spencer þurfti að búa með eiginmanni sínum því það reyndist henni erfitt að finna viðeigandi húsnæði. Hún deildi raunum sínum á samfélagsmiðlum:
„Það hefur verið erfitt að finna skammtímaleiguhúsnæði þar sem maður getur verið með sjö hesta, tvær kindur, fjóra ketti og hund. En með aðstoð góðra vina þá hefur mér tekist að finna eitt hús. Þetta hefur verið erfiður tími en líka tími mikils kærleika. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær ég flyt en tíminn nálgast.“
Spencer hjónin voru gift í 13 ár en Charles Spencer kynntist Cat Jarman árið 2021.