Leikkonan og fyrrum Playboy-kanínan, Pamela Anderson, heldur því fram að hún hafi „næstum verið drepin“ í flugi eftir að flugfarþegi ruglaði henni saman við söngkonu í kántrí-hljómsveitinni The Chicks.
Þetta sagði fyrrum Baywatch-stjarnan í hlaðvarpsþættinum Happy Sad Confused með Josh Horowitz á mánudag. Hún rifjaði upp atvik sem átti sér stað í flugi þegar einn flugfarþeganna gekk upp að henni og spurði: „Veistu hvað þetta land hefur gert fyrir þig?“
Anderson vissi auðvitað ekki hvaðan á sig stóð veðrið, en í hvert skipti sem hún leit til mannsins á hann að hafa blótað einhverju og á einum tímapunkti orðið ofbeldisfullur.
„Þarna var flugfreyja sem þurfti að handjárna hann við sætið þegar hann reyndi að beita mig ofbeldi,“ sagði Anderson í þættinum og kom það síðar upp úr kafinu að hann hélt hana vera meðlim í hljómsveitinni The Chicks.
Anderson dró síðan úr atvikinu en sagðist alltaf hafa verið hrædd við að fljúga eftir þetta. Hún gaf ekki upp hvenær atvikið átti sér stað, en talið er að þetta hafi verið eftir að Natalie Maines, einn meðlima hljómsveitarinnar, gagnrýndi George B. Bush fyrir innrásina í Írak á tónleikum sveitarinnar 2003.