Fjölskyldumeðlimir og vinir dansarans og sjónvarpsmannsins Stephen ’tWitch’ Boss heitins segja frásagnir ekkju hans, dansarans og raunveruleikastjörnunnar Allison Holker, um meinta eiturlyfjanotkun hans vera ekkert annað en uppspuna og leið til að vekja athygli á væntanlegri bók hennar.
Holker ræddi opinskátt um andlát eiginmanns síns, sem féll fyrir eigin hendi þann 13. desember 2022, í viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði People í vikunni og greindi meðal annars frá harðri baráttu hans við fíkniefni sem hún segir hann hafa haldið leyndri fyrir fjölskyldu og vinum.
Eftir birtingu viðtalsins hafa þó nokkrir, nátengdir hjónunum, komið Boss til varnar á samfélagsmiðlum og sakað Holker um að ljúga í þeirri von um að auglýsa væntanlega bók sína, Keep Dancing Through: A Boss Family Groove, sem fjallar um samband þeirra, andlega örðugleika Boss, meinta eiturlyfjanotkun og andlát.
Meðal þeirra sem saka Holker um lygar er bróðir Boss, frænka hans og góðvinkona hjónanna, So You Think You Can Dance-stjarnan Courtney Ann Platt, sem segir Holker hafa komið svívirðilega fram við fjölskyldu hans, þá sérstaklega móður, og vini eftir andlátið og meðal annars meinað þeim að hitta börn þeirra hjóna.
Platt sagði einnig að þetta væri svo lágkúrulegt athæfi til þess að reyna að sverta minningu látins manns í gróðraskyni.
Holker tjáði sig um málið á Instagram-síðu sinni í gærdag og sagði stærstu ástæðuna á bak við útgáfu bókarinnar vera til að hjálpa öðrum í svipaðri stöðu.
Hún sagði einnig að allur ágóði af sölunni renni til styrktar góðgerðasamtökum sem hún setti á laggirnar eftir andlát Boss.