Síðustu ár hafa mörg augu verið á leikaranum Ólafi Darra Ólafssyni. Ekki einungis hér á landi heldur hefur öll heimsbyggðin fengið tækifæri til að fylgjast með glæstum leikferli hans á hvíta tjaldinu. Þar hefur hann sést bregða fyrir í hinum ýmsu hlutverkum hvort tveggja í kvikmyndum og þáttaseríum.
Þrátt fyrir að frægðarför Ólafs Darra nái langt fyrir utan landsteinana fylgir honum alltaf sama hlýjan, hógværðin og hlédrægnin. Hann er jarðbundinn með eindæmum og virðist ekkert sérstaklega uppnuminn af frægðinni.
„Maður á alltaf að hugsa um sig sem eitt af tannhjólunum í risastórri vél,“ segir Ólafur Darri sem hefur tileinkað sér þann hugsunarhátt að leiklistin sé hluti af liðsheild, sama hvort um einleik sé að ræða eða ekki.
„Leiklistin er alltaf liðsíþrótt. Þó þú sért að gera einleik þá er einleikur ekki neitt án þessa eina áhorfanda sem að þarf að vera þannig að einhver sé að horfa. Það er alltaf um fleiri en eina manneskju að ræða inni í herberginu,“ lýsir hann.
„Ég hef á mínum 25 ára ferli horft upp á svo marga frábæra leikara sem hafa ekki fengið að njóta þess hversu góðir þeir eru,“ segir Ólafur Darri sem mælir með því að leikarar á framabraut hugsi um feril sinn sem eitt og eitt skref í átt að lokatakmarkinu.
Hann segir tækifæri sem leikurum gefast oft geta ráðist af algjörum smáatriðum sem í mörgum tilfellum hafa ekkert að gera með hæfni þeirra eða eiginleika. Heldur séu það oft aðrir utanaðkomandi þættir sem geta ráðið för.
„Ég trúi því sterkt að maður eigi að hugsa sinn feril sem mörg, mörg skref. Því ég veit til dæmis að ef ég hefði fengið eitthvað risahlutverk í byrjun míns ferils og fengið eitthvað svona „stjarna er fædd“ að þá hefði það örugglega verið minn banabiti,“ segir hann með þakklæti í brjósti yfir örlögum sínum.
„Ég var svo heppinn að hafa verið umkringdur velviljuðu fólki sem sá í mér einhvern neista eða eitthvað sem það gat notað mig í. Það var fullt af fólki sem réði mig í lítil hlutverk og hægt og rólega náði ég einhvern veginn að byggja undir mig,“ segir Ólafur Darri og telur upp nokkra af þeim aðilum sem í gegnum tíðina hafa haft einhvers konar áhrif á leikaraferilinn og velgengni hans.
„Þegar að ég fer svo að fá stóru tækifærin mín þá er ég bara tilbúinn. Alla vega tilbúnari.“
Ólafur Darri minnist fyrstu vinnuferðar sinnar í Los Angeles, þá kominn langt á fertugsaldur og farinn að sitja örlítið fastar í sjálfum sér. Á þeim tímapunkti segist hann hafa fundið fyrir létti yfir því að hafa ekki öðlast jafnstór tækifæri fyrr á sviði leiklistarinnar líkt og nú því sennilega hafi hann ekki verið tilbúinn í það fyrr.
„Ég hef aftur og aftur upplifað það. Ég man að ég fór á einhverja leiksýningu sem vinur minn var að leika í og eftir á var eldur í bakgarði og allir að drekka ódýran bjór og allt ótrúlega skemmtilegt. En þá hugsaði ég: „Vá, hvað ég er glaður að ég hafi ekki komið hingað þegar ég var tvítugur“,“ lýsir hann.
„Ég væri enn þá bara sitjandi í bakgarðinum. Því þarna voru allir að tala um að þeir væru leikarar en það var samt enginn að vinna við það. Ég hefði alveg auðveldlega geta endað þarna við eldinn að vinna fyrir mér sem þjónn.“
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að sjá allt viðtalið við Ólaf Darra.