Nýjasta plata hljómsveitarinnar Nýdanskrar og sú fjórtánda í röðinni, Raunheimar, kemur út föstudaginn 31. janúar. Sveitin blæs til útgáfutónleika í Norðurljósasal Hörpu klukkan 19 sama dag og til aukatónleika klukkan 22.
Nýdönsk var stofnuð árið 1987 og er í dag skipuð stofnmeðlimunum Birni Jörundi Friðbjörnssyni, Daníel Ágústi Haraldssyni og Ólafi Hólm Einarssyni sem og Jóni Ólafssyni og Stefáni Hjörleifssyni, sem gengu formlega til liðs við hljómsveitina árið 1990.
Meira en sjö ár eru síðan síðasta plata Nýdanskrar, Á plánetunni jörð, kom út en aldrei hefur liðið lengri tími á milli platna sveitarinnar. Blaðamaður settist niður með forsöngvurunum Birni og Daníel í notalegu bókasafni Hótel Holts þar sem íslensk menningarsaga er alltumlykjandi og nálægðin við gamla meistara áþreifanleg.
Liggur beint við að spyrja um tilkomu þess að sveitin hafi ákveðið að vinna nýja plötu eftir þetta langan tíma. Björn er til svars og segir þá allt í einu hafa vaknað upp við það hversu langur tími væri liðinn. Menn hafi þá einfaldlega sammælst um að hætta að hangsa og ráðast í gerð nýrrar plötu.
„Þá er þessi músík sótt einhvers staðar úr himinhvolfunum. Hún liggur í loftinu og það þarf að veiða hana niður. Fæst koma lögin fullsköpuð og eru sjaldan tínd fullsköpuð af trénu. Það þarf að klappa þessu, koma oft að og veiða úr bestu hlutina,“ segir Björn.
Daníel bætir við að tíminn vinni með þeim og þeir séu ekkert að flýta sér. Segir hann alla hljómsveitarmeðlimi lagasmiði og því geti sveitin valið úr lagasmíðum.
„Við erum tónlistarmenn, höfum skapað verðmæti í sameiningu í tæpa fjóra áratugi, erum ekki af baki dottnir og viljum enn gera eitthvað ævintýralegt. Við höfum metnað fyrir því að skapa nýja tónlist sem skiptir máli en ekki fyrir því að koðna niður við að spila eingöngu gömlu góðu lögin, sem standa þó alveg fyrir sínu.
Við erum með einhvern sköpunaranda í brjósti og einhvern neista sem við erum enn í þjónustu við og verðum að sinna,“ segir Daníel.
Þeir Björn fengu aðstöðu í frístundahúsi úti á landi við gerð plötunnar þar sem þeir einbeittu sér að lagasmíðum og textagerð.
„Þetta er svo skemmtileg vinna þegar við tveir komum saman. Við erum sem tveir líkamar og ein sál þegar við leggjum krafta okkar saman,“ segir Daníel.
Björn grípur orðið og segir þá hafa skrifað alla textana á plötunni saman – nema einn, „sem Danni gerði upp á sitt eindæmi þegar ég skrapp frá,“ segir Björn og glottir. „Sást ekki til – þegar þú fórst í göngutúr,“ bætir Daníel við og hlær. „Þá stalst hann í þetta,“ segir Björn „og gerði æðislegan texta.“
Engum sem deilir rými með þessum tveimur turnum íslenskrar poppsögu dylst að þar fara miklir vinir og góðir samstarfsmenn sem bera djúpa virðingu hvor fyrir öðrum.
Árið 2024 var Nýdanskri gjöfult með vel heppnuðum upptökum á Raunheimum í einu eftirsóttasta hljóðveri heims, allt frá stofnun þess seint á níunda áratug síðustu aldar eða um sama leyti og Nýdönsk varð til, Real World Studios í Suður-Englandi en þangað er heiti plötunnar sótt.
Maðurinn á bak við hljóðverið er enski tónlistarmaðurinn Peter Gabriel. Segja þeir að hljómsveitin hafi leynt og ljóst horft til Raunheima enska tónlistarmannsins dreymandi augum í nærri fjóra áratugi og þegar kom að vali á hljóðveri nú hafi þeim líkað samsömun bandsins og hljóðversins – að hafa haldið velli í allan þennan tíma.
Yfirhljóðupptökumeistari ensku Raunheimanna er Katie May, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur tekið upp alla stóru listamennina.
„Hún var eins og hugur manns,“ segir Daníel og Björn bætir við að hún vinni hratt og sé greinilega fluggáfuð því hún hafi alltaf vitað hvað þeir voru að gera þrátt fyrir að skilja ekki orð af því sem þeir sögðu sín á milli.
„Handbragð hennar leynir sér ekki,“ segir Daníel og bætir Björn við að May hafi verið fljót að setja upp hljóðheiminn á plötunni, sem haldi sér í gegnum hana alla.
Daníel minnist þá sérstaklega á þátt Guðmundar Péturssonar. „Guðmundur er gítarsnillingur, sem við höfðum okkur til fulltingis, og gæddi hann plötuna töfrum og bætti miklu við.“
Í Raunheimum Nýdanskrar fær hljómsveitin að njóta sín og segir Björn best að lýsa plötunni sem lifandi hljóðversplötu þar sem hlustandinn fær að heyra tökuna eins og hún kemur fyrir.
Forsmekkurinn af Raunheimum kom út í júlí, Fullkomið farartæki, en lagið sló rækilega í gegn og varð að lokum lag ársins 2024 á Rás 2 og vinsælasta lag ársins á Bylgjunni. Það er sagt frá sjónarhorni miðaldra heimilisföður en þemað í textagerðinni á plötunni er beinar eða bjagaðar skírskotanir í raunheim hins venjulega miðaldra manns.
Nýlega kom út annað lag af plötunni sem nefnist Hálka lífsins. Segir þar frá einum sem er með allt á hælunum og alltaf
kominn út á kant með sjálfan sig og fleira. Í viðlögunum hringir hann heim og reynir að
komast aftur í mjúkinn hjá makanum. Björn segir það ganga fremur illa og þetta sé svolítið gloppótt.
Enn eru örfá sæti laus á tvenna útgáfutónleika Nýdanskrar í Hörpu 31. janúar á tix.is en fyrir áhugasama borgar sig ekki að hika of lengi því ef marka má vinsældir sveitarinnar um þessar mundir líður líklega ekki á löngu þar til allir miðar seljast upp.