Breski metsöluhöfundurinn Neil Gaiman liggur nú undir ásökunum átta kvenna um kynferðislegt misferli.
Ítarlega er fjallað um málið á vef Vulture.
Gaiman er meðal annars höfundur bókanna Good Omens, American Gods og The Sandman sem gerðir hafa verið sjónvarpsþættir eftir.
Í grein tímaritsins er fjallað ítarlega um ásakanir kvennanna og byggir hún á viðtölum við þær allar. Umfjöllunin kemur í kjölfarið á fyrstu ásökununum sem fram komu í hlaðvarpinu Master í júlí í fyrra, en hlaðvarpsþættirnir voru tileinkaðir málinu.
Umboðsmenn Gaimans hafa vísað ásökununum á bug en neita þó ekki að Gaiman hafi átt í samskiptum við konurnar.
Fram kemur að allar konurnar hafi á einhverjum tímapunkti spilað með fýsnum Gaimans með því að kalla hann „húsbónda“ eins og hann fór fram á og haldið áframhaldandi samskiptum við hann. Þær segja þó að samþykki sem átti að vera viðhaft í BDSM-athöfnum hafi farið ofan garðs og neðan.
Því hafa umboðsmenn Gaimans svarað og sagt: „Kynferðislegt niðurbrot, ánauð, yfirráð, sadismi og masókismi fellur eflaust ekki að smekk allra, en á milli fullorðins fólks sem veitir samþykki er BDSM löglegt.“
Frá því ásakanirnar komu fyrst í dagsljósið hafa nokkur verkefna Gaimans beðið hnekki, t.a.m mun þriðju þáttaröð af Good Omens ljúka með 90 mínútna þætti þar sem Gaiman tekur ekki lengur þátt í framleiðslunni.
Disney gerði hlé á gerð kvikmyndar eftir bók Gaimans, The Graveyard Book, og Netflix hætti við Dead Boy Detectives, þótt ekki sé ljóst hvort þær breytingar tengist ásökununum beint.
Útgefandi Gaimans, Headline, hefur neitað að tjá sig um málið.