Kanadíski rapparinn Drake hefur höfðað mál á hendur plötuútgáfufyrirtækisins Universal Music Group (UMG). Drake sakar fyrirtækið um ærumeiðingar og áreitni vegna lags bandaríska rapparans Kendrick Lamar, Not Like Us, sem kom út í fyrra.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Rappararnir eru tveir þekktustu rapparar heims en á síðasta ári áttu þeir í harðvítugum deilum í bundnu máli þar sem þeir báru hvor annan þungum sökum.
Í laginu Not Like Us sakar Lamar Drake um barnaníð.
Í dómsskjölum sem voru lögð fram í New York-borg í dag sökuðu lögfræðingar Drakes UMG fyrir að hafa staðið að herferð við að gefa út slagara sem innihélt falskar staðhæfingar um að Drake væri barnaníðingur.
UMG hefur ekki brugðist við kærunni.
Samkvæmt lögfræðingum Drake snúast málaferlin ekki að Lamar sjálfum heldur aðeins að útgáfufyrirtækinu.
Kæran er gefin út sólarhring eftir að Drake dró til baka kæru á hendur UMG og Spotify þar sem hann sakaði fyrirtækin um að hafa unnið saman að því að auka spilanir á Not Like Us á kostnað tónlistar hans.
UMG neitaði því alfarið að hafa unnið með Spotify til að auka spilun lagsins. Sagði fyrirtækið að ásakanirnar væru móðgandi og að aðdáendur taki sjálfir ákvarðanir um hvaða tónlist þeir kjósi að hlusta á.
Not Like Us var eitt vinsælasta rapplag síðasta árs og má segja að lagið hafi bundið enda á rappdeilur þeirra félaga. Það er tilnefnt til fimm verðlauna á árinu, þar á meðal sem lag ársins á Grammy-verðlaunahátíðinni.