Leikkonan María Birta Bjarnadóttir Fox er búsett í Las Vegas ásamt eiginmanni sínum Ella Egilssyni Fox og ættleiddri dóttur þeirra. Hjónin fluttu til Las Vegas til að elta drauminn en hér heima hafði Maríu Birtu vegnað vel en hún fór með aðalhlutverkið í myndinni Svartur á leik svo einhverjar myndir séu nefndar. Nú leikur í sýningunni Atomic Saloon Show og hefur nú þegar sýnt 2180 sýningar. Á dögunum kom leikarinn Adam Sandler á sýninguna.
„Við fáum allskonar fólk á sýninguna okkar enda höfum við gert 2180 sýningar. Adam Sandler kíkti til okkar með fjölskyldunni sinni. Hann skemmti sér vel og kom svo baksviðs að segja hæ. Hann er auðvitað svo mikið legend að hann var beðinn um mynd,“ segir María Birta í samtali við mbl.is.
Leikarinn Sandler er ekki sá eini sem nýtur frægðar sem hefur komið á sýningu hjá Maríu Birtu og félögum sínum. Bæði söngvarinn Sting og söngkonan Kylie Minogue hafa komið á sýninguna.
Hvern leikur þú í sýningunni?
„Ég leik nunnu en var ég var ráðin sem áhættuleikkona. Nú er búið að minnka álagið á mér því ég braut á mér hnéð í hitti í fyrra á sýningunni. Það er þó ennþá brotinn stóll á bakinu á mér á hverri sýningu,“ segir hún og hlær.
Hvernig var að hitta Adam Sandler?
„Hann var mjög kurteis og indæll og það var fjölskyldan hans einnig. Þetta var í rauninni frekar fyndin sýning því flestir í salnum voru búnir að spotta hann snemma og voru því að horfa á sýninguna og hann til skiptis. Það voru margir að reyna að ná af honum mynd. Hann er auðvitað mjög vanur athyglinni og kippti sér auðvitað ekkert upp við það og skemmti sér bara mjög vel,“ segir María Birta.