„Frá truflandi frumraun sinni Eraserhead til meistaraverksins Mulholland Drive, sameinuðu myrkar sögur Lynch róttækar tilraunir við hið hversdagslega.“ Svona hefst grein í The Guardian um leikstjórann David Lynch, sem féll frá í gær 78 ára að aldri.
Í ágúst í fyrra sagði Lynch frá því að hann hefði greinst með lungnaþembu og í nóvember tjáði hann sig enn frekar um fylgikvilla sjúkdómsins. „Ég get varla gengið á milli herbergja,“ var haft eftir honum. „Það er eins og að ganga um með plastpoka á hausnum.“
Greinin er ein af fjölmörgum í erlendum fjölmiðlum sem ætlað er að votta hinum látna virðingu. Þar segir að engum leikstjóra hafi nokkurn tíma tekist að túlka ameríska drauminn af jafn hreinu sakleysi og David Lynch.
Lynch hlaut m.a. Óskarstilnefningar sem besti leikstjóri fyrir kvikmyndirnar Blue Velvet, Wild at Heart og Molholland Drive og árið 2019 hlaut hann heiðursverðlaun Óskarsins fyrir störf sín í kvikmyndagerð. Hann gerði einnig meistarastykki á borð við Lost Highway (1997) og Inland Empire (2006).
Hann fæddist í Missoula, Montana, árið 1946 og hóf kvikmyndaferilinn á stuttmyndinni Six Men Getting Sick (Six Times) árið 1967. Þegar Lynch vann að meistaraverki sínu Mulholland Drive hugsaði hann um verkið sem þáttaseríu, líkt og hina ógleymanlegu Twin Peaks (1990-2017), en fékk höfnun frá sjónvarpsstöðinni ABC. Það var aftur franska fyrirtækið StudioCanal sem fjárfesti í Mulholland Drive (2001) með því marki að úr yrði kvikmynd, en myndin var síðar kosin besta kvikmynd 21. aldar.
„Lynch sá að ef Bandaríkin dreymdu um öryggi og velmegun, úthverfaaksturinn og girðinguna, dreymdu þau einnig um hið gagnstæða; flótta, hættu, ævintýri, kynlíf og dauða. Og þessar andstæður rákust saman og opnuðu gjá á týnda þjóðveginum til hamingjunnar.“
Þá segir einnig í greininni að Lynch hafi verið einstakur að því leyti að hann tók hefð tilraunamennsku í kvikmyndum, eins og Maya Deren og Meshes of the Afternoon eftir Alexander Hammid, og færði inn í meginstrauminn.
Eflaust eitt það merkilegasta af öllu er áframhaldandi verkefni Lynch, Twin Peaks, og enginn þáttanna af Sopranos né Mad Men nútímans jafnast á við hina dökku ráðgátu- og þriller-dramaþætti Lynch. Fyrstu þættirnir fóru í sýningu 1990, síðar kom út önnur þáttasería með loforði um að þráðurinn yrði tekinn upp að 25 árum liðnum, sem var gert. Leikrænt sápuóperuútlit tíunda áratugarins var fært í dekkra og drungalegra útlit háklassasjónvarpsframleiðslu 21. aldarinnar, og það var Lynch í hnotskurn.
Fjölskylda Lynch setti tilkynningu um andlátið á Facebook með orðunum að stór gjá hafi myndast í veröldinni þar sem hann er ekki lengur þar á meðal. Þá vitnar fjölskyldan í orð Lynch sjálfs: „Hafðu augun á kleinuhringnum en ekki á gatinu.“