„Snilligáfa Davids Lynch var fyrst og fremst fólgin í einstakri sköpunargáfu en um leið óhefðbundinni nálgun á allri þeirri list sem hann tók sér fyrir hendur, því þótt hann væri aðallega heimsfægur fyrir kvikmyndagerð þá gaf hann sig að alls konar annarri list líka. Í huga Davids var jörðin alls ekki kringlótt en sannarlega ekki flöt heldur.“
Þetta segir Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi og gamall samstarfsmaður Davids Lynch og vinur til áratuga. Lynch lést í vikunni, tæplega 79 ára gamall, eftir veikindi.
Lynch hafði mjög sérstakan og auðþekkjanlegan stíl, sem gjarnan var kallaður „lynchískur“, vegna þess að hann var engum líkur, hvorki efnistök né áferð verka hans. „Það var engin leið að setja David í flokk. Hann vildi aldrei takmarka sig og festist aldrei í ákveðnum frásagnarstíl. David hafði einstakt lag á því að gera allt að sínu og hafnaði þeirri mýtu að menn þyrftu að hafa upplifað hlutina til að gera þeim almennileg skil. Í hans huga var nóg að vita hvernig tilfinningin væri,“ segir Sigurjón.
Sigurjón segir að Lynch hafi verið einstakur og um margt óvenjulegur maður. Hann hafi alltaf haft mjög skýra sýn á það sem hann var að gera og aldrei hafi verið nein læti í kringum hann. „Læti og kvartanir voru aldrei liðin á kvikmyndasettinu; þeir sem voru til vandræða komu ekki aftur næsta dag. Pössuðu ekki inn í mengið. David gætti þess vel að láta aldrei safnast upp stress. Sjálfur stundaði hann sína innhverfu íhugun í 45 mínútur í hverju hádegi og menn urðu að borða hljóðlaust. Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með þessu. David bjó til einstakt andrúmsloft og kom til dæmis með nýja tónlist á hverjum einasta degi. Allt í því skyni að halda andanum gangandi, eins og hann var vanur að segja,“ segir Sigurjón.
Nánar er rætt við Sigurjón um Lynch í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.