Heimili ofurfyrirsætunnar og sjónvarpsstjörnunnar Tyru Banks brann til kaldra kola í gróðureldunum sem enn geisa við Los Angeles í Kaliforníufylki.
Banks greindi frá sorgartíðindunum í ástralska morgunþættinum Sunrise á mánudag, en hún hefur verið búsett í Ástralíu síðustu mánuði til að undirbúa opnun nýs útibús ísbúðarinnar Smize & Dream.
„Ég er ein af þeim. Ég missti húsið mitt,“ sagði Banks með grástafinn í kverkunum þegar þáttastjórnendur morgunþáttarins spurðu fyrirsætuna hvort hún þekkti einhvern sem hefði misst heimili sitt í gróðureldunum.
„Ég hef ekkert viljað ræða það, enda vil ég ekki vekja sérstaka athygli á sjálfri mér þegar aðrir, í sömu stöðu og ég, þurfa meira á þessari athygli að halda,“ hélt hún áfram.
Banks var stödd ásamt kærasta sínum, athafnamanninum Louis Bélanger-Martin, á heimili vinahjóna þegar þau komust að því að heimili þeirra hefði brunnið.
„Ég sagði ekkert við vini mína, við fórum bara heim, áttum okkar stund og grétum.“
Fjölmargar Hollywood-stjörnur eru búsettar á svæðinu og hafa margar þeirra þurft að yfirgefa heimili sín á meðan aðrar hafa misst heimili sín í eldsvoðanum.
Á meðal þeirra sem misst hafa heimili sín eru Anthony Hopkins, Jeff Bridges, John Goodman, Cary Elwes, Eugene Levy, John C. Reilly, Tina Knowles, Candy Spelling, Jennifer Grey, Anna Faris, Miles Teller, James Woods, Billy Crystal, Paris Hilton og Milo Ventimiglia.