Tónlistarmaðurinn Ásbjörn Kristinsson Morthens, betur þekktur sem Bubbi Morthens, lenti í leiðindaatviki þegar hann var á göngu með hundinn sinn, hana Lúnu, fyrr í dag.
Bubbi greindi frá atvikinu í Facebook-hópnum Íbúar á Seltjarnarnesi.
Í færslunni segir Bubbi ólalausan mjóhund hafa komið æðandi að sér og Lúnu, en hundurinn var hluti af hópi fimm hunda, allir ólalausir, sem ungur maður var með á göngu.
Bubbi segir unga manninn ekki hafa haft neina stjórn á hundinum sem hafi stokkið upp um hann og hrætt Lúnu. Þegar Bubbi sagði manninum að það væri óásættanlegt að hafa hunda á lausagöngu þá hafi hann brugðist illa við og sagt Bubba að róa sig á meðan hann öskraði úr sér lungun á hundinn.
Bubbi endaði færsluna á því að hvetja hundaeigendur til að hafa hundana sína í ól.
Bubbi og Lúna eru miklir félagar og fara mikið í göngutúra í kringum Gróttu. Tónlistarmaðurinn birtir reglulega myndir á Instagram frá göngutúrum þeirra í náttúrunni.