Bandaríski sveitasöngvarinn Billy Ray Cyrus, best þekktur fyrir slagarann Achy Breaky Heart frá árinu 1992, virtist vera undir áhrifum áfengis eða annarra deyfandi efna þegar hann steig á svið á Liberty Ball-viðburðinum sem fór fram að lokinni innsetningarhátíð Donald Trump Bandaríkjaforseta á mánudag.
Cyrus, sem er faðir poppstjörnunnar Miley Cyrus, virtist ölvaður, þvoglumæltur og óstöðugur á fótum þegar hann steig á svið. Hann átti í stökustu vandræðum á sviðinu og reyndi að flytja lag sitt, Achy Breaky Heart, án undirleiks í kjölfar tæknilegra örðugleika.
Sveitasöngvarinn hefur verið mikið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína og segja margir hann hafa sýnt Trump, aðdáendum sínum og bandarísku þjóðinni, óvirðingu með hegðun sinni á sviðinu.
Sonur Cyrus, tónlistarmaðurinn Trace Cyrus, tjáði sig um föður sinn á Instagram-síðu sinni í gærdag og hvatti hann til að leita sér hjálpar.
„Þú ert ekki í góðu ástandi pabbi, það sjá það allir. Ég sit hér og skrifa þetta með tárin í augunum og vona svo innilega að þú gerir þér grein fyrir því að þessi skilaboð koma beint frá hjartanu. Ég óttast að heimurinn muni missa þig alltof snemma,” skrifaði Trace meðal annars við færsluna.
Líf Cyrus, sem er 63 ára, hefur síður en svo verið dans á rósum síðustu ár. Hann gekk í gegnum tvo skilnaði á jafnmörgum árum og er sagður eiga í stormasömu sambandi við uppkomin börn sín.