Landsliðið syngur tvö gullfalleg lög

Þorgils Óttar Mathiesen var framkvæmdastjóri útgáfunnar. ​
Þorgils Óttar Mathiesen var framkvæmdastjóri útgáfunnar. ​

Lag Valgeirs Guðjónssonar, Við gerum okkar besta, hefur fylgt íslenska handboltalandsliðinu, eða Strákunum okkar, um langt skeið en það var samið sem baráttusöngur fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988. En landsliðið á annað lag, sem kom út aðeins fyrr, sem hefur ekki skilað sér eins vel inn á öldina sem við lifum á núna, Allt að verða vitlaust.

Sjálfur man ég ágætlega eftir þessu lagi en hafði ekki heyrt það lengi þegar það fór allt í einu undir nálina í einum útvarpsþættinum á dögunum, svona til að kynda undir Strákunum okkar á HM sem nú stendur yfir. Ótal spurningar vöknuðu. Hvenær kom þetta út? Hver samdi lagið? Hver samdi textann? Og þar fram eftir götunum.

Einboðið var að leggjast í rannsóknir og grúsk og áður en ég gat sagt „kaíró“ var ég búinn að finna eftirfarandi klausu, sem birtist á íþrótta-síðu Dags sáluga á Akureyri á aðventunni 1985. Umsjón hafði Kristján Kristjánsson, sem síðar átti eftir að vinna á Morgunblaðinu:

„Fimmtudaginn 5. des. kemur út hljómplata, þar sem ísIenska handboltalandsliðið syngur tvö gullfalleg lög eftir þá Jón Ólafsson og Helga Má Barðason. Lögin heita Söngur íslensku berserkjanna og Allt að verða vitlaust, en í því lagi nýtur landsliðið góðrar aðstoðar Péturs Hjálmarssonar, fyrrverandi Galdrakarls, við sönginn.“

Einmitt það.

Mikill árbítlabragur er á laginu, þannig að ekki kemur á óvart að það sé úr smiðju Jóns góða Ólafssonar, píanóleikara og lagahöfundar, sem enn er iðinn við kolann. Þetta er á svipuðum tíma og Jón var í þeirri frómu sveit Bítlavinafélaginu.

Jón Ólafsson samdi Allt að verða vitlaust.
Jón Ólafsson samdi Allt að verða vitlaust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handboltalandsliðið er skráður flytjandi en naut fulltingis téðs Péturs Hjálmarssonar, sem ekki hafði verið göldróttur en átt aðild að hljómsveitinni Galdrakörlum sem lengi var húshljómsveit í Þórscafé. Samkvæmt mínum heimildum lögðu Galdrakarlar upp laupana 1983. Síðar var Pétur í Granada tres tríó sem sérhæfði sig í spænskri og suðuramerískri tónlist.

Hugsað sem fjáröflun

Fram kom í frétt Dags að mikil vinna væri á bak við þessa hljómplötu og skipuð hefði verið framkvæmdanefnd vegna útgáfu hennar. Í henni voru landsliðsmennirnir Þorgils Óttar Mathiesen, sem var framkvæmdastjóri, og Þorbjörn Jensson, Guðjón Guðmundsson, Gaupi, sem var aðstoðarmaður hjá landsliðinu á þessum tíma, og Jón Ólafsson. Útgefandi var skráður Bogdan records sem vísar að sjálfsögðu í landsliðsþjálfarann, Pólverjann Bogdan Kowalczyk.

Og ekki var bara um sprell og almenna hvatningu að ræða, útgáfa hljómplötunnar var hugsuð sem fjáröflunarleið vegna þátttöku handboltalandsliðsins í úrslitakeppni HM í Sviss í janúar 1986. Kristján stóðst þó ekki mátið og lét þess getið að löngu væri kominn tími til þess að hljóðrita „þessar engiltæru raddir“.

En hugsið ykkur, að Strákarnir okkar hafi þurft að standa fyrir fjáröflun fyrir sjálft heimsmeistaramótið. En það var víst dýrt að fljúga til Sviss á þessum tíma, hvað þá að dveljast þar á hótelum. „Allir þeir sem koma nálægt gerð þessarar hljómplötu lögðu sitt af mörkum svo þetta yrði sem ódýrast en jafnframt sem best úr garði gert. Það skal skýrt tekið fram að það eru leikmenn sjálfir sem gefa plötuna út,“ stóð í fréttinni.

Nánar er fjallað um Allt að verða vitlaust í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur unnið vel og skipulega og hefur nú lokið verkefni þínu í tæka tíð. Einhverra hluta vegna veita samstarfsmenn þér einstaklega mikinn stuðning.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur unnið vel og skipulega og hefur nú lokið verkefni þínu í tæka tíð. Einhverra hluta vegna veita samstarfsmenn þér einstaklega mikinn stuðning.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar