13 ára gefin eldri manni

Michelle Lemuya Ikeny í hlutverki Nawiar.
Michelle Lemuya Ikeny í hlutverki Nawiar. ​Filmcrew

„Von mín er sú að myndin hrindi af stað umræðum, vegna þess að þetta er mál sem fólk vill helst ekki ræða,“ segir keníska leikkonan Michelle Lemuya Ikeny í samtali við vef breska ríkisútvarpsins, BBC, en hún fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Nawi sem fjallar um viðkvæmt mál, barnungar stúlkur í Keníu sem giftar eru eldri mönnum.

Ikeny, sem er aðeins 15 ára, er hvergi bangin að tjá sig um málið enda þótt það gæti verið túlkað sem svik og henni jafnvel útskúfað í samfélaginu sem hún fæddist inn í og ólst upp í en það er í norðvesturhluta landsins.   

Myndin gerist í Turkana, sveitahéraði nærri landamærunum að Úganda, en Sameinuðu þjóðirnar segja að ein af hverjum fjórum stúlkum þar um slóðir giftist fyrir 18 ára aldur enda þótt það sé bannað með lögum.

„Margar af vinkonum mínum hafa þurft að hætta í skóla eða fóru aldrei í skóla vegna þess að einhver greiddi heimanmundinn og feður þeirra létu þær gifta sig,“ segir Ikeny en hún óx sjálf úr grasi í Turkana.

Hún kveðst hafa haft þessar stúlkur í huga þegar hún lék í myndinni en Ikeny hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína; var til að mynda valin efnilegasti leikarinn á afrísku kvikmyndaverðlaununum í nóvember.

Michelle Lemuya Ikeny á rauða dreglinum, aðeins 15 ára.
Michelle Lemuya Ikeny á rauða dreglinum, aðeins 15 ára. Instagram


Ikeny hafði aldrei leikið áður og hélt reyndar, þegar hún var fengin í hlutverkið, að um skólaleikrit væri að ræða en ekki kvikmynd fyrir alþjóðamarkað. „Þetta hefur breytt lífi mínu,“ viðurkennir hún, „en ég vona að það hreyfi ekki við kjarnanum í mér.“

Sættir sig ekki við örlög sín

Nawi fjallar um 13 ára stúlku með sama nafni sem seld er í hjónaband með eldri manni í skiptum fyrir búfénað, 60 kindur, átta kameldýr og 100 geitur. Hefð sem á sér langa sögu í hinu afskekkta Turkana-héraði. Nawi sættir sig ekki við örlög sín og flýr á brúðkaupsnóttina til að freista þess að láta draum sinn um framhaldsnám í höfuðborginni, Nairobi, rætast en hún er afburðanemandi. Það mælist hvorki vel fyrir innan fjölskyldunnar né samfélagsins í heild enda getur verið erfitt að brjóta af sér hlekki hefðarinnar. Nawi er ekki bara að hugsa um sjálfa sig, heldur ekki síður allar hinar stúlkunnar sem eru í sömu sporum eða koma til með að vera það. Hún kallar eftir breyttu viðhorfi, von, virðingu og síðast en ekki síst frelsi. Nawi kemst undan en þarf að snúa aftur til Turkana eftir að hún fréttir að selja eigi yngri systur hennar sama manninum í hennar stað.

Nánar er fjallað um Nawi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup