Tennisstjarnan Anna Kournikova vakti athygli fjölmiðla þegar hún sást í hjólastól í Miami á dögunum.
Ekki hefur sést til Kournikovu í tvö ár og í tilefni af því fer Daily Mail ítarlega yfir sjúkrasögu tennisstjörnunnar margfrægu.
Kournikova hefur lengi glímt við bakvandamál og þurfti að hætta að leika tennis árið 2003 þegar hún greindist með króníska bakveiki sem gerir það að verkum að hún er stíf og verkjuð í neðra baki og fótleggjum. Þá finnur hún einnig fyrir doða og nálatilfinningu.
Í viðtali 2011 sagðist hún aldrei hafa trúað því að tennisferill hennar yrði svona stuttur.
„Bakið neyddi mig til þess að hætta. Þetta var svo slæmt ég gat ekki einu sinni reimað skóna. Ég var sárkvalin. Ég sem hef verið í stöðugri þjálfun í sex til átta tíma á dag frá því að ég var fimm ára. Það var svo sérstakt að hætta að leika tennis og þurfa að komast að því hver ég var án tennisins. Það var mjög erfitt og ógnvekjandi. Ég gerði allt sem ég gat. Ég fór til sálfræðinga og fór í tíu tíma langar göngur til þess að hugsa minn gang og reyna nýja hluti.“
Síðan þá hefur Kournikova haldið sér utan sviðsljóssins. Hún er gift spænska söngvaranum Enrique Iglesias og þau eiga þrjú börn saman.