Vilhjálmur Bretaprins endurspeglaði á einlægan hátt sorgina úr eigin barnæsku þegar hann heimsótti Child Bereavement UK-miðstöðina í Widnes á Englandi. Heimsókn Vilhjálms var liður í góðgerðarstarfsemi hans og var heimsókninni ætlað að styðja við bakið á syrgjandi fjölskyldum.
Vilhjálmur prins var aðeins fimmtán ára gamall þegar móðir hans, Díana prinsessa, lést árið 1997. Árið 2009 tók hann við fyrra starfi móður sinnar sem verndari samtaka stofnuðum af góðri vinkonu Díönu, Julia Samuel, sem einnig er guðmóðir fyrsta barns Vilhjálms og Katrínar, George prins.
„Þegar syrgt er getur stundum verið svo erfitt að finna orð yfir hvernig manni líður,“ var meðal þess sem Vilhjálmur sagði. „Hugurinn festist við aðeins eitt, er það ekki? Það verður erfitt að stunda skóla og lifa eðlilegu lífi.“
Vilhjálmur sagði minninguna um að fá fréttir af því að móðir hans hefði látist í bílslysi þá sorglegustu sem hann hafi upplifað. Hann leggi upp úr að styðja við málefni sem voru móður hans hugleikin áður en hún lést, þ.á.m Child Bereavement UK.
Þann 5. febrúar var Vilhjálmur í miðstöðinni og hitti þar fjölskyldur sem hafa átt um sárt að binda vegna missis náins ástvinar. Samtökin bjóða þjónustu og stuðning við ungt fólk að 25 ára aldri, pör og fjölskyldur, þeim að kostnaðarlausu.
„Það er mikilvægt að finna að það séu tengsl. Þú þarft smá stuðning og hann má ekki vera of klínískur,“ sagði Vilhjálmur um starfsemi samtakanna.