Rapparinn Kendrick Lamar skemmti áhorfendum í hálfleik Ofurskálarinnar á Caesars Superdome-leikvanginum, í New Orleans, Louisiana, í gærkvöldi og hafa helstu miðlar gefið ansi góða umsögn um frammistöðu hans á sviðinu.
Lamar hefur heldur betur klifið upp stigann og ýmsa fjöruna sopið, frá því að alast upp í Compton í Los Angeles til þess að vinna til Pulitzer-verðlaunanna, árið 2018, fyrir plötu sína Damn sem kom út 2017. Hann er fyrsti rapparinn til að vinna til verðlaunanna.
Rapparinn vann til Grammy-verðlauna í byrjun febrúar m.a. fyrir lag sitt Not Like Us en á sama tíma lögsækir rapparinn Drake útgáfufyrirtækið Universal Music vegna lagsins. Lamar hefur verið tilnefndur 57 sinnum til Grammy og hlotið 22 Grammy-verðlaun.
Til að skilja leið Lamars fer BBC í gegnum uppruna listamannsins, í Compton, þar sem götuerjur gengjanna Bloods og Crips voru daglegt brauð. Ein af fyrstu minningum rapparans eru af Watts-óeirðunum árið 1992 sem brutust út eftir að lögreglumenn úr lögreglunni í Los Angeles gengu illa í skrokk á Rodney King og í kjölfar réttarhaldanna sem leiddu ekki til sakfellingar lögreglumannanna.
„Það var reykur alls staðar og pabbi minn var með fullt af stolnum bílfelgum [sem hann hafði rænt] í aftursætinu sem hann hafði tekið úr Compton Swap Meet,“ sagði Lamar í viðtali við Signed Media. „Pabbi og frændur mínir tóku allir þátt í Watts-óeirðunum. LA er mjög viðkvæm og stolt af fólkinu sínu. Við bókstaflega brenndum niður gömlu hverfin okkar vegna reiði yfir Rodney King-málinu.“
Lamar vakti fyrst athygli í rappheiminum 2011 og var því fylgt eftir með fyrstu breiðskífunni good kid, m.A.A.d city, sem kom út árið 2012.
Seb Joseph, markaðssérfræðingur og ritstjóri hjá Digiday, telur að ákvörðun NFL um að fá Lamar til að skemmta í hálfleik eigi að endurspegla nýtt gildi vörumerkisins, sem hefur þolað ásakanir um kynþáttafordóma í fortíðinni.
Þá segir Joseph: „Ef fyrri flytjendur á Ofurskálinni, eins og Prince, Beyoncé og Madonna, voru holdgervingar poppsins, þá táknar Kendrick Lamar það andstæða: Menningarlegt þyngdarafl.“
Listamenn sem skemmta í hálfleik Ofurskálarinnar fá ekki greitt fyrir að koma fram. Hins vegar eru allar líkur á að atriðið leiði til aukins streymis á lögum listamannanna, aukningu í sölu platna og vörumerkjasamninga. Þá er atriði söngkonunnar Rihönnu árið 2023 tekið sem dæmi en hálfleikssýningin varð til þess að streymi á lögum hennar jókst um 640% og snyrtivörumerkið, Fenty Beauty, halaði inn fimm milljónum dala í auglýsingatekjur.
Stóra spurningin fyrir atriði Lamars var hvort hann myndi taka lagið umdeilda Not Like US, sem hann og gerði, en hann sleppti því þó að nafngreina Drake á sviðinu, enda þarf ekki annað en að hlusta á lagið á Spotify til að heyra um hvern hann rappar.