Tennisstjarnan fyrrverandi, Serena Williams, sýndi heldur betur góða danstakta á sviði í hálfleik Ofurskálarinnar í gærkvöldi.
Það var enginn annar en rapparinn Kendrick Lamar sem skemmti á sviði í hálfleik Ofurskálarinnar og í einu af síðustu lögum rapparans sást hin 43 ára tennisstjarna taka nokkur dansspor, sem rekja má til takta Los Angeles-klíkunnar Crips árið 1970.
Williams kom fram í stuttu, bláu tennispilsi, jakka í stíl, hvítum topp og samsvarandi strigaskóm. Framkoma hennar var ekki löng en danssporin voru góð. Þar þótti hún eiga síðasta orðið, en árið 2012 varð Williams miðpunktur heitrar umræðu sem skapaðist í kjölfar þess að hún tók svipuð spor eftir að hún sigraði Mariu Shaparovu á Ólympíuleikunum í London.
Hún var spurð að því á blaðamannafundi á sínum tíma hvort hún sæi eftir því að hafa tekið þessi dansspor, í ljósi þess að sporin eru tengd við Crips-klíkuna í Los Angeles. Hún svaraði því að þetta hefði einungis verið dans og að blaðamenn skyldu spyrja spurninga sem lyftu henni upp í stað þess að draga úr henni. Svo sagði hún málið afgreitt.