Hafnar eru tökur á nýjum íslenskum sálfræðitrylli, Röskun (Disturbed), í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar (Birta, Víti í Vestmannaeyjum, Harry og Heimir, Sveppamyndirnar o.fl.) en Röskun er hans ellefta mynd í fullri lengd.
Handritið skrifaði Helga Arnardóttir og er myndin byggð á samnefndri bók Írisar Aspar Ingjaldsdóttur frá árinu 2019.
Framleiðslufyrirtæki Braga Þórs og Helgu, H.M.S. Productions, festi sér réttinn á bókinni strax sama ár og hefur handritið verið í vinnslu frá þeim tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá H.M.S. Productions.
Sagan fjallar um Heru Hallgrímsdóttur, rúmlega þrítugan lögfræðing sem er að byggja upp líf sitt eftir nauðgun og er nýflutt í íbúð í góðu hverfi.
Hún glímir við smávægilega geðröskun í kjölfar áfallsins og óöryggi sem stigmagnast dag frá degi þar til hún veit ekki hvort um sé að ræða ímyndun um gerandann sem aldrei fannst eða hvort hún sé ásótt af konu sem myrt var í íbúðinni hennar tveimur árum fyrr.
Með aðalhlutverk fer Þuríður Blær Jóhannsdóttir en í öðrum hlutverkum eru meðal annarra Arnar Dan, Unnur Birna Backman, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Kolbeinn Arnbjörnsson, Damon Younger og fleiri.
Áætlað er samkvæmt tilkynningu framleiðslufyrirtækisins að myndin fari í sýningar í kvikmyndahúsum seinni hluta þessa árs.
Í kjölfarið fari hún í sýningu í Sjónvarpi Símans Premium, sem tekið hefur þátt í þróun og framleiðslu myndarinnar frá upphafi.
Framleiðandi er Valdimar Kúld sem áður hefur tekið þátt í framleiðslu mynda eftir Braga Þór.
Kvikmyndin er styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands og hlaut nýverið styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum (Nordisk Film & TV Fond), eins og segir í tilkynningunni.