Raunveruleikaþáttastjarnan og dragdrottningin, The Vivienne eða James Lee Williams, fannst látin á baðherbergi heimilis síns 5. janúar síðastliðinn.
Lögregla hafði staðfest að ekkert benti til að eitthvað grunsamlegt hefði átt sér stað í tengslum við andlátið. Faðir Williams, Lee Williams, bar kennsl á líkið.
Nú hefur réttarlæknirinn, Victoria Davies, bent á að krufning leiddi í ljós óeðlilega dánarorsök og gefið það út að frekari rannsóknar sé þörf og hefur því frestað rannsókninni til 30. júní.
„Í ljósi óeðlilegrar dánarorsakar sem greind var við krufningu er rétt fyrir mig að hefja formlega rannsókn á dauða James Lee Williams,“ sagði Davies.
Williams ólst upp í Colwyn Bay, í norðurhluta Wales, áður en hann flutti til Liverpool. Hann vann fyrstu seríuna af raunveruleikaþáttunum RuPaul's Drag Race UK 2019 og varð í þriðja sæti í Dancing On Ice 2023.
Hundruð manns söfnuðust saman á tröppum St. George's Hall í miðborg Liverpool í síðasta mánuði til að votta The Vivienne virðingu sína. Fjölskyldan hefur lýst því opinberlega að vera frávita af sorg.
Jarðarför stjörnunnar fór fram í lok janúar í Denbighshire og var fjöldi fólks viðstatt athöfnina, m.a. fyrrum meðkeppendur hans í þáttunum RuPaul's Drag Race UK.